Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Úttekt á starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda

Úttekt á starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Páli Hreinssyni, forseta EFTA-dómstólsins, hefur verið falið að gera úttekt á starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda í stjórnsýslunni ásamt lögfræðingum í forsætisráðuneytinu. Fjallað var um málið í ríkisstjórn í morgun, að tillögu forsætisráðherra, og gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið 1. október 2019.

Í úttektinni verða m.a. sett viðmið sem höfð verða til hliðsjónar til að meta við hvaða aðstæður verði réttlætanlegt að setja á stofn sjálfstæða úrskurðarnefnd. Þá verður metið hvort ástæða sé til að samræma betur málsmeðferð slíkra nefnda, eftir atvikum með breytingum á VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt verður farið yfir álit umboðsmanns Alþingis þar sem fjallað hefur verið um sjálfstæðar úrskurðarnefndir og því svarað hvort ástæða sé til lagabreytinga af því tilefni. Loks verður metið hvort rétt sé að einhverjar nefndir verði lagðar niður eða sameinaðar og/eða verkefni færð að nýju inn í ráðuneyti.

Aldarfjórðungur verður liðinn frá gildistöku stjórnsýslulaganna 1. janúar n.k. en gildistaka þeirra markaði tímamót bæði að því er varðar starfsskilyrði stjórnsýslunnar og réttarstöðu borgaranna í samskiptum þeirra við yfirvöld. Við þessi tímamót og af því tilefni kynnti forsætisráðherra aðgerðaáætlun fyrir árið 2019 á afmælisári stjórnsýslulaganna. Þar verði m.a. farið í fræðsluátak um stjórnsýslulögin með það að markmiði að auka þekkingu á reglum laganna innan og utan stjórnsýslunnar og gefa út afmælisrit um stjórnsýslulögin og framkvæmd þeirra í 25 ár þar sem fram komi gagnrýnin greining.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira