Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Aðkoma atvinnulífs og félagasamtaka mikilvæg í uppbyggingu þróunarríkja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ræðustól á fundinum í morgun. Ljósm. gunnisal - mynd

„Meginmarkmiðið með framlagi Íslands til þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og stuðla að atvinnusköpun og viðvarandi sjálfbærum hagvexti í þróunarlöndum til að leggja grunn að aukinni velsæld. Aðkoma atvinnulífsins – sem býr yfir frumkvæði og margs konar sérþekkingu sem nýst getur við að leysa flókin verkefni – er mikilvægur þáttur í þessari uppbyggingu. Því höfum við nú útfært nýjar leiðir til samstarfs við atvinnulífið á sviði þróunarsamvinnu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fjölmennum opnum fundi í morgun, sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir með áherslu á þátttöku fulltrúa atvinnulífsins og fulltrúa félagasamtaka.

Guðlaugur benti á mikilvægi þess að fá félagasamtök inn í samstarfið því með samvinnu allra aðila sem kæmu með fjölbreytta þekkingu inn í verkefni væru líkurnar auknar á því að ná settum markmiðum. Við útfærslu nýrra samstarfsleiða hefði ráðuneytið sérstaklega litið til Danmerkur og Noregs, nágrannalanda með mikla reynslu og þekkingu af samstarfi við atvinnulífið á sviði þróunarsamvinnu. „Þar hafa samstarfsmöguleikar við atvinnulífið verið skilgreindir innan faglegra ramma, svo sem samkeppnissjóða, sem eru taldir vera heppilegt fyrirkomulag til að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang atvinnulífsins og félagasamtaka að fjármögnun verkefna.“

Leiðirnar tvær sem kynntar voru á fundinum eru annars vegar sérstakur samstarfssjóður við atvinnulífið um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hins vegar samstarf við félagasamtök með aukinni áherslu á þá möguleika sem felast í samvinnu við félagasamtök sem tengjast atvinnulífinu og samstarfi félagasamtaka við fyrirtæki um tiltekin verkefni.

Fram kom í máli Ásdísar Bjarnadóttur sérfræðings á þróunarsamvinnuskrifstofu að samstarfssjóðurinn væri samkeppnissjóður, en umsækjendur þyrftu að keppa um fjármagn með því að senda inn umsóknir. Styrkfjárhæðin gæti numið að hámarki 200 þúsund evrum (28 milljónum kr.) yfir þriggja ára tímabil og mætti ekki fara umfram 50% af heildarkostnaði. Þá kom fram að áætluð framlög í sjóðinn yrðu allt að 400 milljónir króna á árunum 2018-2021.

Ágúst Már Ágústsson sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu kynnti áralangt samstarf ráðuneytisins við frjáls félagasamtök og vakti athygli á því að framlög til þeirra hefðu aukist hratt á síðustu árum á sama tíma og fjöldi samstarfsaðila hefði staðið í stað. Hann sagði ráðuneytið standa fyrir vinnustofu í Veröld – húsi Vigdísar, síðdegis á fimmtudag, þar sem fulltrúum félagasamtaka, sem ekki hafa mikla reynslu af samstarfi við ráðuneytið, yrði boðin fræðsla um samstarfsmöguleika félagasamtaka við ráðuneytið, með áherslu á þróunarsamvinnu.

Með þessum tveimur leiðum er vonast eftir aukinni þátttöku íslensks atvinnulífs og félagasamtaka og víðtækara samstarfi fleiri aðila í þróunarsamvinnu með það að markmiði að styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira