Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Basalt arkitektar og Lava Centre hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2018

Basalt arkitektar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2018 fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu en þeir hafa lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Nýjustu dæmin eru The Retreat við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia og GeoSea sjóböðin á Húsavík.

Umsögn dómnefndar

„Basalt arkitektar hafa einstakt lag á að tvinna mannvirki saman við náttúruna og hafa sýnt gott fordæmi þegar kemur að hönnun baðstaða. Byggingarlistin er í hæsta gæðaflokki þar sem hvert smáatriði er úthugsað og rými eru hönnuð af virðingu og látleysi. Arkitektúrinn skapar ramma fyrir einstaka upplifun gesta í stórbrotinni náttúru landsins.“

Lava Centre á Hvolsvelli hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2018, en til sýningarinnar voru ráðnir framúrskarandi hönnuðir á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín sem unnu hana í nánu samstarfi við Basalt arkitekta sem einnig hönnuðu bygginguna sem hýsir sýninguna. Útkoman er skýrt dæmi um þá verðmætasköpun sem góð hönnun felur í sér. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins veitti Bárði Erni Gunnarssyni einum eigenda Lava Centre viðurkenninguna.

Umsögn dómnefndar

„Lava Centre er dæmi um fjárfestingu í ferðaþjónustu sem framkvæmd er af stórhug og fagmennsku. Lava centre nýtir aðferðafræði hönnunar til að útskýra á grípandi hátt sum þeirra margbrotnu og stórfenglegu náttúruafla sem hafa mótað jörðina og hófu myndun Íslands fyrir tugmilljónum ára. Unnið var með færustu hönnuðum á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín og Basalt arkitektum sem hönnuðu sýninguna í nánu samstarfi en Basalt arkitektar hönnuðu einnig bygginguna sem hýsir sýninguna. Útkoman er skýrt dæmi um þá verðmætasköpun sem góð hönnun felur í sér.“

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt samfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar og einnig gildi hönnunar og skapandi hugsunar þvert á atvinnugreinar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum