Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Tímanna tengsl

Á milli Grænlands og Íslands hafa í meira en þúsund ár ríkt langvarandi og óviðjafnanleg vinatengsl, tengsl sem átt hafa sér eðlilega þróun og munu í framtíðinni öðlast aukið vægi. Það er okkur því mikil ánægja að fá að deila hér okkar sýn og leggja gjörva hönd á plóg við útgáfu þessa sameiginlega þemablaðs landa okkar.

Við undirritun íslensk-grænlensku viljayfirlýsingarinnar (Joint Decalaration) árið 2013 var fyrri samstarfsvettvangur styrktur í sessi og honum fenginn formlegri farvegur auk þess sem fjöldi nýrra samstarfsmöguleika var skilgreindur og staðfestur. Verslun og viðskipti er eitt, en stjórnmálatengslin dafna jafnframt með föstum árvissum fundum á sviði sjávarútvegsmála en einnig á vettvangi norðurskautsráðsins, Norðurlandaráðs og vestnorræna ráðsins. Hagsmunir Íslands og Grænlands eiga eðli málsins samkvæmt samleið á sviði fiskveiða, ferðaþjónustu, samgangna, landbúnaðar, menntamála, heilbrigðismála og síðast en ekki síst á menningarsviðinu. Hin síðustu ár hafa fært samfélögum okkar stækkandi skiptimarkað með kvikmyndir, tónlist, myndlist og leiklist sem hefur víkkað sjóndeildarhring nágrannaþjóðanna.

Reynslan hefur kennt okkur að varanleg og góð samverkatengsl við Ísland verða til með þekkingu á og beinum samskiptum við íslenska tengiliði. Þar með viljum við styrkja tengsl Íslands og Grænlands enn fremur með fleiri áþreifanlegum samstarfsverkefnum og fræðaskiptum sem krefjast þéttriðins samskiptanets með góðum og traustum tengiliðum. Af Grænlands hálfu er auðsótt að virkja slík tengsl með markvissri uppbyggingu í íslensku höfuðborginni sem er kveikjan að því að grænlenska stjórnin, með dyggum stuðningi landsþingsins, hefur ákveðið að opna fulltrúaskrifstofu í Reykjavík árið 2018. Sendifulltrúar beggja þjóða á staðnum í Nuuk og Reykjavík munu mynda brú milli íslenskra og grænlenskra stjórnvalda og fyrirtækja.

Sameiginleg hagsmunamál þjóða okkar eru mörg og vilji okkar stendur til nánara samstarfs, ekki síst á vettvangi norðurslóðamála, þar sem aukið samráð Íslands og Grænlands getur rennt enn frekari stoðum undir hagkvæma staðsetningu landanna. Þá ber ekki að gleyma því að aukin verslun milli landanna er kveikjan að vexti og hagsæld beggja þjóða sem án nokkurs vafa mun reynast samfélögum okkar gæfuríkt.

Sameiginleg grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Ane Lone Bagger, menningar-, mennta-, kirkju- og utanríkisráðherra Grænlands, í tilefni opnunar sendiskrifstofu Grænlands í Reykjavík í október 2018. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu og grænlenska blaðinu Sermitsiaq. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira