Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Reglur um aðfaranám í opið samráð

Aðfaranám er nám ætlað einstaklingum sem ekki hafa lokið tilskyldu framhaldsskólanámi til að geta hafið nám í háskóla. Reglur um aðfaranám hafa verið til endurskoðunar í mennta- og menningarmálaráðuneyti með það að markmiði að einfalda regluverk þeirra og skýra ábyrgð og réttindi er því tengist. Endurskoðun þessi snertir meðal annars ábyrgð háskóla, einingafjölda náms, aldur nemenda og skipulag námsins.

Drög að reglunum eru nú birt í Samráðsgátt stjórnvalda. Markmið gáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda þar inn umsagnir eða ábendingar.

Í nýjum reglum um aðfaranám er m.a. kveðið skýrar á um ábyrgð viðkomandi háskóla á aðfaranámi og skipulagi þess og tekið fram að aðfaranámið sé ekki ígildi stúdentsprófs og uppfylli þar af leiðandi ekki almenn inntökuskilyrði í háskóla. Ekki er lengur gerð krafa um að nemandi hafi lokið að lágmarki 140 framhaldsskólaeiningum til að geta sótt um að hefja aðfaranám. Í eldri reglum er kveðið á um 25 ára aldursviðmið með ýmsum undanþágum. Reynslan hefur sýnt að stærstur hluti nemenda er eldri en 23 ára og aðeins í undantekningartilfellum eru nemendur yngri en 20 ára í aðfaranámi. Ákveðið var að nota orðalagið fullorðnir nemendur til að undirstrika að aðfaranám er fyrst og fremst ætlað eldri einstaklingum sem ekki hafa lokið tilskyldu framhaldsskólanámi til að geta hafið nám í háskóla.

Smelltu hér til þess að kynna þér málið í Samráðsgátt stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira