Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Tímamót í sögu Náttúruminjasafns Íslands

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana og eiginkona hans Sól­run Løkke Rasmus­sen, Eliza Reid forsetafrú, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Pétur M. Jónasson prófessor emeritus og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.  - myndMynd frá SAHARA
Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands, var opnuð við hátíðlega athöfn í Perlunni í Öskjuhlíð laugardaginn 1. desember og var opnunin liður í hátíðarhöldum í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Ávörp fluttu Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. Viðstaddir opnunina voru meðal annars forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana.

„Náttúran, landið, hafið og vötnin hafa í sambúð sinni við þjóðina allt í senn alið, nært, þroskað, pínt og hert Íslendinga í meira 1100 ár, og við erum sem aldrei fyrr meðvituð um mikilvægi jafnvægis í umgengni okkar við náttúruna, eigi þessi sambúð að halda áfram. Sýning sem sú sem hér verður opnuð er því allt í senn áminning, viðurkenning, virðingarvottur og hvatning til þess að við til þess að við gerum enn betur í framtíðinni,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu.

Markmið sýningarinnar er meðal annars að benda okkur á að umgangast vatnið í öllum sínum myndum af aðdáun og virðingu og fræða gesti um undur náttúrunnar. Opnun hennar er merkur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Hún er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum setur upp á eigin vegum síðan safnið var formlega sett á laggirnar árið 2007. Sýningin er fyrsta skrefið í áttina að því að hér á landi verði til fullbúið safn í náttúrufræðum þar sem fyrir hendi verða sérfræðingar á sviði náttúru- og safnafræða og aðstaða til móttöku náttúruminja, skráningar þeirra og varðveislu. Safnið hefur til afnota 340 fm hæð í Perlunni í Öskjuhlíð þar sem fyrirtækið Perla norðursins setur upp fjölbreyttar sýningar tengdar íslenskri náttúru og hugviti, listfengi og nýjustu tækni er einnig beitt til þess að gera upplifun gesta sem áhrifaríkasta.

Börnum er gert sérstaklega hátt undir höfði í miðlun nýju sýningarinnar og er hún að verulegu leyti sniðin að því að vekja áhuga ungra gesta. Tveir safnkennarar munu sinna sérstaklega móttöku skólahópa á sýninguna og sjá um kennslu, einkum fyrir leik- og grunnskóla.

Nánar má fræðast um sýninguna á heimasíðu Náttúruminjasafnsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira