Hoppa yfir valmynd

Embætti forstjóra Barnaverndarstofu 
Laust embætti forstjóra Barnaverndarstofu

Auglýst er laust til umsóknar embætti forstjóra Barnaverndarstofu. Embættið heyrir undir félags- og barnamálaráðherra samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Barnaverndarstofa vinnur að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til. Ráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd þjónustunnar við börn og geta breytingar orðið sem hafa áhrif á starfsemi Barnaverndarstofu. 

Leitað er að áhugasömum og drífandi leiðtoga sem er tilbúinn að taka þátt í vinnu við þessa heildarendurskoðun.  

Forstjórinn starfar samkvæmt fyrirmælum laga, reglugerða og erindisbréfi sem félags- og barnamálaráðherra setur honum.  Ráðherra skipar forstjóra Barnaverndarstofu til fimm ára í senn og verður skipað í embættið 1. mars 2019.             

Forstjóri ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann fer einnig með starfsmannamál stofnunarinnar sbr. reglugerð um Barnaverndarstofu nr. 264/1995, með síðari breytingu. 

Menntunar- og hæfniskröfur:
Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Embættis- eða meistarapróf skilyrði.
Leiðtogahæfileikar, víðtæk reynsla á sviði stjórnunar og barnaverndar.
Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu.
Færni í mannlegum samskiptum.
Reynsla af innleiðingu breytinga er æskileg.
Gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. 
Góð kunnátta í ensku er skilyrði og kunnátta í Norðurlandamáli æskileg.

Sérstök þriggja manna hæfnisnefnd mun meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð til félags- og barnamálaráðherra. Um laun og starfskjör gilda lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. 

Upplýsingar um starfið veitir Gissur Pétursson ráðuneytisstjóri  í síma 545 8100. Ráðuneytið hvetur karla jafnt sem konur til að sækja um embættið. Umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir hæfni viðkomandi til að gegna embættinu. Umsókn skal skila rafrænt á netfangið [email protected] eða til félagsmálaráðuneytisins, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík, eigi síðar en 28. janúar 2019. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið liggur fyrir. 

Reykjavík, 11. janúar 2019
Félagsmálaráðuneytið

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira