Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Félags atvinnurekenda

Ávarp utanríkisráðherra
Allir elska Ísland

Ársfundur Félags atvinnurekenda
14. febrúar 2019


Ágætu fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag.

Það er sérstaklega ánægjulegt að vera boðið að flytja erindi á fundi undir yfirskriftinni „Allir elska Ísland“.

Ég tek mér það bessaleyfi að snúa erindisheitinu upp í spurningu og spyr:

Elska allir Ísland?

Á þessum degi elskenda er við hæfi að rifja upp að sínum tíma sungu þær Sigga Beinteins og Sigrúna Eva „Nei eða já“ í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Ég ætla að hlífa ykkur við söngröddinni en rétt eins og þær stöllur vil samt ég svara þessari spurningunni bæði játandi og neitandi.

Fyrst að Já-inu.

Í starfi mínu sem utanríkisráðherra síðastliðin tvö ár hef ég hitt fjölda ráðherra og framkvæmdastjóra alþjóðlegra stofnana og fyrirtækja og get ekki annað en fyllst stolti þegar ég finn hversu sterkt orðspor Íslands og Íslendinga er. Jákvæð athygli umheimsins í okkar garð er mikið ánægjuefni.

Án efa hafa markaðsátök á borð við „Inspired by Iceland“ og „Iceland Naturally“ og vörumerki á borð við „Iceland“ og „Icelandic“ skipt miklu máli.

Þau standa fyrir hágæða íslenskar afurðir í alþjóðlegu markaðsstarfi. Vörumerkin eru gæðastimpill á íslenskar útflutningsvörur og útflutningsþjónustu. Íslensk fyrirtæki geta tengt sig uppruna sínum og njóta góðs af jákvæðri ímynd landsins. Þetta virkar vegna þess að það er innistæða fyrir þessu.

En það kemur margt fleira til en markaðsherferðir og sterk vörumerki.

Orðspor Íslands verður til með samvinnu okkar allra. Hvert og eitt ykkar, og þar á meðal fyrirtæki á borð við geoSilika, Brugghús Borgar, Baseparking og Brauð & co og önnur sem hér eru í dag, eiga sinn þátt í því.

Þegar við eigum í samstarfi við erlend fyrirtæki eða tökum á móti erlendum gestum hér heima, hefur það áhrif. Þegar ungt námsfólk stundar nám erlendis og myndar þar tengslanet, þá telur það. Íslenskt listafólk og íþróttafólk ber hróður okkar um víða veröld og árangur okkar í jafnréttismálum er alkunna.

Við þetta bætist svo allt það fólk sem starfar við það að koma fram fyrir Íslands hönd, hvort sem það erum við í utanríkisþjónustunni, samstarfsfólk okkar í öðrum ráðuneytum, Íslandsstofu, Kynningarmiðstöðvum listgreina eða aðrir.

Í fyrra stóðu sendiráðin okkar fyrir mörg hundruð viðburðum til að vekja athygli á landi og þjóð, enda tvöföld ástæða til að fagna á því fullveldis- og knattspyrnuári.
Íslandsstofa hratt af stað markaðsverkefninu „Team Iceland“ og með því voru sagðar örsögur af árangri Íslands á fullveldisöldinni undir merkjum „Hundred years of thinking differently“.

Þarna reyndum við að svara heiðarlega og af óvanalegri hógværð spurningunni um hvernig okkur Íslendingum tókst, þrátt fyrir náttúruhamfarir, vosbúð, frostavetur og faraldra, að byggja upp nútímalegt og gott samfélag hér á hjara veraldar á einungis hundrað árum.

Við eigum svo sannarlega nóg af sönnum, góðum sögum að segja: Af sjálfbærum sjávarútvegi, árangri í vísindum, nýsköpun og hátækni, endurnýjanlegri orku, menningu og listum, og síðast en ekki síst af jafnrétti.

Gott orðspor Íslands á öllum sviðum skapar þannig bæði traust og aðdráttarafl, sem nýtist fyrirtækjum í sókn á markaði. En gott orðspor er ekki nóg til að halda uppi bestu lífsgæðum og stöðugum hagvexti á Íslandi – það þarf töluvert meira til.

Ég hef ósjaldan vísað í McKinsey skýrsluna frá 2012 þar sem fram kemur að auka þurfi útflutning um einn milljarð í hverri viku.

Og hér er ég komin að NEI-inu í erindi mínu í dag:

Það elska ekki allir Ísland nógu mikið, eða hvað?

Ef svo væri streymdu hingað alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestar og við ættum jafnvel heimsþekkt stórfyrirtæki og vörumerki líkt og nágrannaþjóðir okkar, sem hefðu sterka alþjóðlega stöðu. Við erum því miður ekki nógu nálægt því að ná þessu markmiði.

Staðreyndin er sú að undanfarin ár hefur heildarútflutningur aukist allt of lítið. Hluta skýringarinnar má rekja til óhagstæðrar gengisþróunar, en betur má ef duga skal.
Utanríkisþjónustan þarf að gera sitt. Undanfarin tvö ár höfum við brett upp ermar og reynt að velta við öllum steinum í okkar leit.

Í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar sem kom út fyrir rúmu ári lögðum við fram yfir 150 tillögur um hvernig við getum gert betur, meðal annars í þágu íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi. Það er gaman að segja frá því að í dag höfum við framkvæmd 114 af 151 tillögu.

Um þessar mundir stýrir Björn Bjarnason úttekt starfshóps stjórnvalda um kosti og galla EES aðildar. Ég er þess fullviss að sú úttekt muni leiða í ljós mikilvægi EES fyrir íslenskt atvinnulíf.

Við höfum þegar ráðist í eflingu hagsmunagæslunnar á vettvangi EES til þess að koma sjónarmiðum Íslands betur á framfæri. Það er markmið hjá okkur, og ein af tillögunum, að EES-reglur verði innleiddar þannig að þær verði minna íþyngjandi fyrir íslenska hagsmunaaðila. Við höfum því breytt verklagi og komið upp vinnuferlum hjá ráðuneytum sem miða að því að sporna við því að innleiddar gerðir verði meira íþyngjandi en þörf er á. Dæmi eru nefnilega um að við höfum gengið lengra en þörf krefur við innleiðingu; vandað okkur of mikið.

Við höfum eflt samráð við atvinnulífið um hvernig aðild aðalþjóðlegum viðskiptasamtökum og efnahags- og fjármálastofnunum geti betur þjónað því og hvaða viðskiptasamninga sé þörf til að opna nýja markaði fyrir íslensk fyrirtæki

Ég hef sjálfur undirritað 20 nýja viðskiptasamninga og tekið upp viðskiptahagsmunamál okkar við fjölmarga ráðherra helstu samstarfsríkja Íslands, svo sem Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, allra Norðurlandanna, Japans, Kína og Indlands, svo nokkur dæmi séu tekin.

Ég hef farið fyrir viðskiptasendinefnum og opnað viðskiptaþing erlendis til að kynna íslenska vöru og þjónustu. Ég hef einnig setið ófáa fundi með forsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja og samstarfsaðilum þeirra erlendis.

Eitt mikilvægasta verkefnið sem við höfum komið í gegn er að hafa samþykkt lög um nýja Íslandsstofu, þar sem atvinnulífinu er gefin megin ábyrgð á að stýra ferðinni í eflingu markaðssetningar Íslands. Nýskipuð stjórn, nýráðinn framkvæmdastjóri og nýtt og skilvirkara skipulag gefa von um enn öflugri Íslandsstofu sem verði betur í stakk búin til að styðja við útflutning, fjárfestingar og markaðssetningu Íslands. Þetta verður gert í samstarfi við fjölmarga aðila og ekki síst utanríkisþjónustuna.

Nú er unnið að undirbúningi langtímastefnu, í samstarfi við hagaðila, um nýja alþjóðlega sókn Íslands á markaði. Hér er áherslan ekki síst á að vinna með grasrótinni í atvinnulífinu. Unnið er að umfangsmikilli greiningu á samkeppnishæfni og sóknarfærum Íslands annars vegar og hins vegar á því hvernig efla megi stuðningskerfið sjálft, ekki síst úti á mörkuðum.

Heimurinn er að breytast hratt, og miklu hraðar en flestir gera sér grein fyrir. Við sjáum að kínverska millistéttin telur brátt hálfan milljarð manna, og er nú þegar fjölmennari en íbúar Bandaríkjanna og Kanada samanlagt. Nýjar siglingaleiðir opnast brátt sem munu breyta mjög mynstri vöruflutninga og þjónustuverslun.

Við þurfum því að halda árvekni okkar og sveigjanleika til að takast á við nýja tíma. Við þurfum að vinna öll saman að því að verja hagsmuni okkar en sýna jafnframt áræðni til að sækja á nýja markaði.

„Nei eða já - af eða á? Erfitt er oft að finna svarið. Þó á ég von á því að finna það hjá þér.“
En það er einmitt hjá ykkur, kæru fundargestir, og þeim fyrirtækjum og stofnunum sem þið starfið hjá þar sem svörin verða til. Samvinnan við atvinnulífið og fyrirtækin er undirstaða þess að starf okkar á sviði viðskiptaþjónustu skili árangri. Megi það verða farsælt og öflugt, hér eftir sem hingað til.

Ég þakka ykkur gott hljóð og óska ykkur góðs og elskulegs fundar.















Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum