Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lyfjaeftirlit eflt

Dr. Skúli Skúlason formaður stjórnar Lyfjaeftirlits Íslands og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. - mynd

Lyfjaeftirlit Íslands er sjálfstæð stofnun sem komið var á laggirnar sl. vor og tók hún þá við eftirlitshlutverki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Stjórnvöldum ber samkvæmt íþróttalögum að sinna lyfjaeftirliti og á dögunum var skrifað undir langtímasamning við Lyfjaeftirlit Íslands um starfsemi þess og fjármögnun. Samningurinn var undirritaður af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og dr. Skúla Skúlasyni formanni stjórnar Lyfjaeftirlits Íslands.

„Sjálfstætt lyfjaeftirlit er mikilvægt fyrir íþróttalífið í landinu og ímynd íþróttafólksins okkar út á við. Hlutverk þess í forvarnar- og fræðslumálum er einnig brýnt, ekki síst á tímum þegar vísbendingar eru um að lyfjanotkun sé að færast í aukana. Ég fagna því til að mynda að Lyfjaeftirlit Íslands hafi kynnt líkamsræktarstöðvum aðgerðir gegn notkun ólöglegra árangursbætandi efna á þeim vettvangi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Lyfjaeft­irlit Íslands skipuleggur og framkvæmir lyfjaeftirlit á Íslandi, og birtir og kynnir bannlista um efni þau sem óheimilt er að nota í íþrótt­um. Lyfja­eft­ir­lit Íslands sinnir einnig fræðslu og forvörnum gegn lyfjam­is­notk­un og stendur reglulega fyrir fræðslufyrirlestrum um lyfjamál í háskólum, framhaldsskólum og hjá íþróttasamböndum- og félögum. Þá tekur Lyfjaeftirlitið þátt í alþjóðlegu sam­starfi í tengsl­um við bar­átt­una gegn lyfjam­is­notk­un í íþrótt­um og sinnir eftirliti í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands sem fram koma í alþjóðasamningum UNESCO um lyfjaeftirlit og lyfjaeftirlitssamningi Evrópuráðsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum