Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Endurskoðun á ákvæðum um almannarétt í náttúruverndarlögum í samráð


Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum við drög að breytingu á lögum um náttúruvernd. Breytingin varðar m.a. ákvæði um almannarétt auk þess sem gerðar eru breytingar á ákvæðum er varða stjórnsýslu innflutnings framandi lífvera.

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að almannaréttur einstaklinga verði styrktur samhliða því að réttur landeiganda til að takmarka för einstaklinga um afgirt óræktað land í byggð verði settar nokkrar skorður. Þannig megi ekki takmarka eða banna för og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð nema á grundvelli tiltekinnar nýtingar eða verndunar landsins. Ekki verði heimilt að takmarka för um slíkt land með gjaldtöku fyrir aðgang. Í drögunum er einnig lagt til að afla þurfi leyfis landeiganda þegar skipulagðar eru endurteknar hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd í byggð sem geta valdið tjóni eða ónæði. Þá er lagt til að heimilt verði í undantekningartilvikum að takmarka heildarfjölda ferðamanna um tiltekið svæði ef veruleg hætta er talin á varanlegu tjóni af völdum umferðar eða ágangs á umræddu svæði.

Einnig eru lagðar til breytingar á leyfisveitingarferli vegna innflutnings lifandi framandi lífvera. Samkvæmt núverandi framkvæmd eru slíkar leyfisveitingar og eftirlit á hendi Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar og geta þeir sem hyggjast flytja inn lifandi framandi lífveru því þurft að leita til beggja stofnananna til að sækja um leyfið. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að stjórnsýsla leyfisveitingaferlisins verði samræmd og einfölduð þannig að hægt verði að sækja um innflutningsleyfið á einum stað jafnvel þótt tvö leyfi þurfi til innflutningsins.

Endurskoðun laganna nú er í samræmi við bráðabirgðaákvæði sem sett voru við lögin við gildistöku þeirra árið 2015 sem kváðu á um að endurskoða skyldi þau ákvæði laganna sem nú eru lagðar til breytingar á.

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 13. mars næstkomandi.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 í Samráðsgátt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira