Hoppa yfir valmynd
13. mars 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Leiðarljós og áherslur ráðherra við gerð áætlunar í málefnum sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur kynnt áherslur sínar fyrir vinnu við gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Starfshópur sem ráðherra skipaði til að vinna að áætluninni í hans umboði hefur þegar hafið störf. Nýverið fékk starfshópurinn bréf frá ráðherra þar sem tilgreind eru leiðarljós og helstu áherslur ráðherra við mótun stefnunnar.

Áherslur ráðherra lúta að því að tryggja sjálfsstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa og auka virkni og aðkomu þeirra við ákvarðanatöku og stefnumótun, efla sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að standa til lengri tíma undir lögbundinni og venjubundinni þjónustu við íbúana og að sveitarfélög horfi til heildarhagsmuna og séu í stakk búin að takast á við byggðaþróun og samfélagsbreytingar.

Unnið að gerð grænbókar
Starfshópurinn vinnur að gerð stöðuskjals, grænbókar, sem kynnt verður á næstu vikum. Stöðuskjalið er mikilvægur þáttur í stefnumótunarferlinu og samráði þar um. Skjalinu er ætlað að hvetja til umræðu um núverandi stöðu, helstu viðfangsefni og framtíðarsýn fyrir sveitarstjórnarstigið, ásamt áherslum og ólíkum leiðum. Starfshópurinn mun nýta umræður og allar ábendingar sem fram koma í tengslum við stöðuskjalið til að fullvinna drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.

Starfshópurinn stefnir að því að kynna drög að þingsályktunartillögu um málefni sveitarfélaga í sumar. Efni og inntak stefnunnar verði síðan til umfjöllunar á 150. löggjafarþingi í haust, auk fleiri þingmála sem kunna að tengjast einstökum aðgerðum stefnumörkunarinnar.

Leiðarljós og áherslur ráðherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira