Hoppa yfir valmynd
14. mars 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundaði með fyrrverandi forseta Írlands og Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti fund með Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands og Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, í tengslum við fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York í Bandaríkjunum. Írland fer með formennsku í kvennanefndinni og sagði Robinson mikilvægt að samningar fundarins stæðu vörð um þann árangur sem fyrirliggjandi samningar, framkvæmdaáætlunin um málefni kvenna frá 1995 og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna endurspegla.

Auk þess að ræða um jafnréttismál komu efnahagsmál, tækniþróun í þágu kolefnasnauðs hagkerfis, afvopnunarmál og tengsl mannréttinda og loftlagsmála til umræðu á fundi Robinson og forsætisráðherra. „Ég er sannfærð um að meira þurfi til en hefðbundnar pólitískar aðferðir til að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum. Við þurfum öll að láta til okkar taka og stjórnvöld og atvinnulíf verða ekki síst að hafa í huga áhrif loftslagsbreytinga á félagslegt réttlæti,“ sagði forsætisráðherra. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsstefna íslenskra stjórnvalda og ekki síst virk þátttaka ungs fólks væri henni hvatning til aðgerða í þágu komandi kynslóða.

Robinson var forseti Írlands 1990 –1997 og Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna 1998-2003. Hún tók ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, þátt í stofnun Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) og veitti ráðinu formennsku á árunum 2003–2009. Í ráðinu sitja starfandi og fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar úr röðum kvenna. Markmið ráðsins er að hvetja konur í valdastöðum um allan heim til að taka höndum saman um að vinna þeim málum brautargengi sem skipta sköpum fyrir konur og jafnrétti kynja.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira