Hoppa yfir valmynd
15. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lýðskólafrumvarp í opið samráð

Unnið er að gerð frumvarps um lýðskóla á Íslandi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis en hér á landi hefur til þessa ekki verið nein löggjöf um slíka starfsemi. Frumvarpsdrögin eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda.

Markmið með fyrirhuguðu lýðskólafrumvarpi er að skapa faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla, þar með talið hvaða skilyrði skólar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu sem slíkir. Lagt er til að framvegis verði hugtakið „lýðskóli“ notað um starfsemi þeirra þar sem orðið „háskóli“ er lögverndað fyrir sambærilega starfsemi og myndi kalla á breytingar á lögum um háskóla.
Forsögu málsins má rekja til þingsályktunartillögu Alþingis frá 2. júní 2016 þar sem mennta- og menningarmálaráðherra var falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Í greinargerð hennar var m.a. lagt til að rekstrarumhverfi þeirra yrði gert sambærilegt því sem þekkist á Norðurlöndum.

Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við margskonar áskoranir með öðrum aðferðum en í hefðbundnum skólum. Þannig er nám í lýðskólum heildstætt nám án eininga og prófa. Þá er gert ráð fyrir að nemendur búi á heimavist til að efla umburðarlyndi og samskiptahæfni. Lýðskólar geta því verið góð millilending fyrir 18 ára og eldri sem vilja átta sig á möguleikum sínum og framtíðarsýn. Lagt er til að námsskrár lýðskóla lýsi stigvaxandi hæfniviðmiðum náms til að auðvelda mat á raunfærni til frekara náms eða starfa.

Umtalsvert samráð hefur nú þegar farið fram um frumvarpið, meðal annars við þá tvo lýðháskóla sem nú eru starfandi og fjölda hagsmunaaðila sem koma að námi fullorðinna. Verði frumvarpið að lögum skapar það traustari forsendur fyrir starfsemi lýðskóla hér á landi en í frumvarpinu verða meðal annars sett fram skilyrði um rekstrarform þeirra, stjórnskipan, lágmarksfjölda nemenda og réttindi þeirra, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Við frumvarpsgerðina er að mestu horft til sambærilegra laga í Noregi og Danmörku.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum