Hoppa yfir valmynd
15. mars 2019 Forsætisráðuneytið

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna fundar með ríkisstjórninni

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna ásamt ráðherrum í ríkisstjórn - mynd

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fundaði með ríkisstjórninni í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun og afhentu aðgerðaáætlun með þeim verkefnum sem ráðið telur mikilvæg við innleiðingu stjórnvalda á heimsmarkmiðunum.

Á meðal þess sem kemur fram í aðgerðaáætluninni eru málefni sem snerta ungmenni svo sem umhverfismál, menntamál, forvarnir og andleg líðan ungmenna á Íslandi í dag.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Fundur okkar með ungmennaráðinu var góður og gagnlegur. Við fengum mikilvæg skilaboð í aðgerðaáætluninni sem þau hafa unnið mjög vandlega. Allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka í dag munu hafa áhrif á komandi kynslóðir og þess vegna er þetta samtal svo mikilvægt.“

Hulda Margrét Sveinsdóttir, 18 ára fulltrúi Norðurlands í ungmennaráðinu:

„Við sem samfélag verðum að standa saman og vinna að sjálfbærni þannig að við náum að uppfylla öll heimsmarkmiðin fyrir 2030. Það að vera sjálfbær þýðir að við uppfyllum okkar þarfir án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Jörðin er komin að þolmörkum! Við verðum að vera meðvituð um neyslu okkar og hvernig við erum að lifa í dag. Við þurfum að spara notkun einkabílsins, minnka matarsóun og axla ábyrgð á neyslu okkar. Ef ekkert verður gert þá verðum við ungmennin síðasta kynslóðin sem nýtur þeirra lífsgæða sem við höfum í dag“.

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal ungmenna og innan samfélagsins í heild. Ungmennaráðið fundar sex sinnum á ári og þar á meðal árlega með ríkisstjórn. Þá veitir ráðið stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna. 

Hægt er að fylgjast með störfum ungmennaráðsins á Facebook síðu þess og þá hefur ungmennaráðið einnig miðlað frá deginum í dag á Instagram-reikningi Félags Sameinuðu þjóðanna.

Tillögur ungmennaráðs heimsmarkmiðanna að aðgerðaáætlun stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna 


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira