Hoppa yfir valmynd
21. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun styrkja til gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu

Að lokinni afhendingu gæðastyrkja í heilbrigðisráðuneytinu - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti í dag rúmar tvær milljónir króna í styrki til fimm gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu. Verkefnin eru á ólíkum sviðum en hafa hvert og eitt skýran tilgang í þágu notenda þeirrar þjónustu sem um ræðir. „Metnaðarfull verkefni sem geta haft mikil áhrif“ sagði heilbrigðisráðherra við styrkveitinguna í dag.

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001. Markmiðið með þeim er að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar, en ekki síður að veita hvatningu og viðurkenningu því fólki sem leggur metnað sinn í að móta og vinna að verkefnum í þessu skyni. Að þessu sinni var auglýst eftir verkefnum sem hafa að markmiði að bæta skipulag og stuðla að samfelldari og betur samræmdri þjónustu við sjúklinga og bárust ráðuneytinu 44 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna.

Átak gegn óráði heitir verkefni sem Landspítalinn stendur fyrir og felst í gerð kennslumyndbands fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að auka þekkingu þess á óráði hjá sjúklingum, samræma betur verklag við greiningu, forvarnir og meðferð við óráði. Í verkefnislýsingu kemur fram að aldraðir einstaklingar og sjúklingar með heilabilun, alvarlega sjúkdóma eða mjaðmabrot eru líklegri til að þróa með sér óráð en aðrir og að oft sé það vangreint og vanmeðhöndlað. Upplýsingar um verkefnið eru á vefslóðinni www.landspitali.is/orad

Landspítalinn hlýtur einnig styrk til verkefnis um aukna samvinnu heilsugæslulækna og þvagfæraskurðlækna varðandi verklag og tilvísanir sjúklinga með þvagfærasjúkdóma. Markmið verkefnisins er að gera þjónustu við þennan sjúklingahóp skilvirkari en einkenni frá þvagfærum eru algeng ástæða fyrir komum í heilsugæsluna. Ef vel gengur gæti verkefnið orði fyrirmynd vegna annarra sérgreina segir í verkefnislýsingu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hlýtur styrk til verkefnis sem lýtur að samfelldri þjónustu heimahjúkrunar, heilsugæslunnar og Landspítalans. Mótað verður og innleitt verklag með þetta að markmiði. Leitast verður við að skýra og einfalda verkferla og bæta upplýsingaflæði og nýta meðal annars upplýsingatækni og nýjungar í sjúkraskrá.

Heilbrigðisstofnanir Austurlands og Vesturlands fá styrk til þýðingar á gagnreyndri HAM meðferðarhandbók fyrir kvíðin börn og foreldra þeirra. Hugræn atferlismeðferð samkvæmt handbókinni hefur verið rannsökuð í Bretlandi og sýnt góðan árangur. Í verkefnislýsingu segir að meðferðin sé aðgengileg, auðveld í framkvæmd og gagnist breiðum hópi barna. Hún gæti því verið gott verkfæri til að bæta sálfræðiþjónustu og stytta biðlista eftir sálfræðiþjónustu á landsbyggðinni. Loks hlýtur styrk verkefni Landspítalans Öruggt “Hand-Off“ við vaktaskipti sem ætlað er að auka öryggi sjúklinga með því að móta staðlaðar leiðir við vaktaskipti lækna, líkt og nánar er lýst í verkefnalýsingu.

Úthlutunarnefnd skipuð þremur fulltrúum ráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna. Fjögur verkefni fengu 500 þúsund króna styrk og eitt þeirra fékk 150 þúsund krónur.

 

 

  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Afhending gæðastyrkja 2019 - mynd
  • Stöðvum óráð - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum