Hoppa yfir valmynd
27. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarsamstarf Íslands og Lettlands

Dace Melbärde, menningarmálaráðherra Lettlands er stödd hér á landi og fundaði í dag með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðherrarnir ræddu samstarf og tengsl landanna og þá möguleika sem felast í auknum samskiptum þeirra á menningarsviðinu. Tilefni heimsóknar lettneska ráðherrans var meðal annars að kynna sér aðstæður og starfsemi í tónlistarhúsinu Hörpu.

Ísland og Lettland eiga í góðum samskiptum, ekki síst á vettvangi NB8-samstarfsins þar sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin þrjú; Eistland, Lettland og Litháen, starfa saman. Það samstarf nær til margra sviða og stofnana stjórnsýslu landanna, t.d. á sviði lýðræðisþróunar, orkumála, almannavarna og viðskipta.

Í boði eru styrkir frá lettneskum stjórnvöldum til handa íslenskum námsmönnum eða kennurum sem sækja vilja háskólanám eða stunda rannsóknir í Lettlandi. Einnig er hægt að sækja um styrk vegna sumarnámskeiða. Næsti umsóknafrestur fyrir slíka styrki er 1. apríl nk. en nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rannís.

„Við höfum átt í mjög farsælum og góðum tengslum við Lettland og önnur Eystrasaltsrík undanfarin ár. Við eigum margt sammerkt með þeim og höfum mörgu að miðla. Ég bind vonir við að við getum útvíkkað okkar samstarf og hugað að nánari tengslum á sviði menningar- og menntamála,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum