Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra fundaði með forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og aðilum vinnumarkaðarins

Á fundinum var rætt um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði og yfirstandandi kjarasamninga. Ásmundur Einar Daðason og Guy Ryder eru hér fyrir miðju. - myndFélagsmálaráðuneytið. Mynd: BIG

Aðilar vinnumarkaðarins litu upp úr kjarasamningsgerð laust fyrir hádegi í dag til að funda með Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Guy Ryder, forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem er staddur hér á landi í tengslum við norræna ráðstefnu um framtíðarskipan vinnumála og breytingar á vinnumarkaði sem hefst í Hörpu á morgun. Hún er haldin í tilefni af 100 ára afmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og stendur yfir fram á föstudag. Hann situr sömuleiðis árlegan fund Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál sem stendur nú yfir í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Guy  Ryder hefur þegar átt fund með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Á fundinum með aðilum vinnumarkaðarins var rætt um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði og yfirstandandi kjarasamninga. „Það er mikill heiður að hafa Guy Ryder hér á landi enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins. Ísland hefur ekki síður mikið fram að færa þegar kemur að vinnumarkaðsmálum og er litið til lausna Íslands sem og hinna Norðurlandanna á alþjóðavísu,“ sagði Ásmundur Einar.

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári og fer Ásmundur Einar fyrir fundinum í Safnahúsinu í dag. Þar mun Guy Ryder ræða tillögur úr nýrri skýrslu heimsnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hún ber nafnið „Work for a brighter future“ og fjallar um áskoranir og möguleika þeirra breytinga sem nú eru að verða á vinnumarkaði í heiminum. Fundinn sitja sömuleiðis Ylva Johansson atvinnumálaráðherra Svíþjóðar og Anniken Hauglie atvinnu- og félagsmálaráðherra Noregs.

Ásmundur sagði að horft verði til framtíðar bæði á ráðherrafundinum í dag og á ráðstefnunni í Hörpu. „Framtíðarskipan vinnumála verður rauði þráðurinn í umræðunum, ekki síst í ljósi nýrrar tækni en auk þess verður lögð sérstök áhersla á umræður um stöðu kynjanna á vinnumarkaði.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum