Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Órofa samstaða í sjötíu ár


Fyrir réttum sjötíu árum komu fulltrúar tólf þjóða saman í Washington í Bandaríkjunum og horfðu til óvissrar framtíðar. Evrópa var að rísa úr öskustó áralangra stríðshörmunga með gríðarlegu mannfalli og hryllilegum óhæfuverkum. Fornir fjendur höfðu snúið bökum saman til að sigrast á gerræði nasismans og vinaþjóðir í Norður-Ameríku barist við hlið Evrópubúa til að tryggja lýðræðislega framtíð. Nú hafði álfunni hins vegar verið skipt upp á milli austurs og vesturs, járntjald hafði verið dregið upp frá Eystrasalti í norðri að Adríahafi í suðri, kalt stríð stórveldanna var skollið á. 

Þjóðirnar tólf sem stofnuðu með sér Atlantshafsbandalagið 4. apríl 1949 voru staðfastar og stórhuga.  Eins og fornir kappar sórust þessi sjálfstæðu lýðræðisríki í fóstbræðralag og hétu því að árás á eitt þeirra jafngilti árás á þau öll.  

Það var stórt og áræðið skref fyrir hið unga lýðveldi Ísland að vera eitt þessara tólf ríkja. Auk þess var Ísland var eina herlausa ríkið og Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra,  áréttaði í undirritunarávarpi sínu að svo yrði áfram. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var ekki óumdeild.  Tekist var harkalega á bæði innan og utan þinghússins þessa síðvetrardaga árið 1949. Deilurnar um aðildina að Atlantshafsbandalaginu urðu svo að bitbeini í íslenskum stjórnmálum næstu áratugi. Íslenskir ráðamenn þess tíma vildu leggja fortíðina að baki, nýlendutíma, konunglegt yfirvald, ömurð, fátækt og hernám – nýtt lýðveldi horfði hnarreist fram á veginn, þjóð meðal þjóða. 

Að fortíð skal hyggja ef framtíð á að byggja. Hver er staðan í dag? Hvar stendur Ísland í heimsmynd öryggis- og varnarmála? Bandalagið sem gerðumst á sínum tíma stofnendur að hefur bæði vaxið að styrk og umfangi. Ríki Austur-Evrópu sem mynduðu Varsjárbandalagið, meðal annars til höfuðs Atlantshafsbandalaginu, leystu það upp fyrir um þremur áratugum og hafa síðan gengið unnvörpum til liðs við Atlantshafsbandalagið og vestræna samvinnu. Þannig hefur bandalagsríkjunum fjölgað í 29, brátt þrjátíu, þegar Norður-Makedónía verður tekin í hópinn.

Atlantshafsbandalagið hefur fyrst og fremst það markmið að tryggja varnir bandalagsríkjanna, hvers og eins og sameiginlega. Auk þess gegnir það enn veigamiklu hlutverki við að tryggja frið á Balkanskaga og stuðlar að uppbyggingu, stöðugleika og borgaralegri yfirstjórn öryggismála í stríðshrjáðum samstarfsríkjum. Atlantshafsbandalagið vinnur með Sameinuðu þjóðunum og í umboði þeirra. Ekki má gleyma að okkar norrænu vinaþjóðir utan bandalagsins, Svíþjóð og Finnland, starfa eins náið með bandalaginu og mögulegt er án fullrar aðildar. Það kom glögglega ljós á Trident Juncture 2018, vel heppnaðri varnaræfingu sem fór meðal annars fram hér á landi í fyrrahaust. 

Ísland leggur sitt af mörkum í starfi innan bandalagsins og í verkefnum þess til að tryggja langtímafrið og lýðræði, ekki síst með jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi. Þessi gildi verða alltaf grundvöllur okkar framlags og þátttöku, sem fer ávallt fram á borgaralegum forsendum eins og áréttað er í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. 

Erfitt er að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér  Við horfum til gríðarlegra tækninýjunga, framþróunar og stökkbreytinga í öryggismálum, vörnum, aðgengi að upplýsingum, tækni og búnaði. Við höfum allan heiminn innan seilingar, en á sama tíma virða ógnir og áskoranir engin landamæri, flæða á milli heimshluta í netheimum eða upplýsingasamfélagi þar sem hefðbundinn viðbúnaður eða varnir eru aðeins brot af stærri mynd þjóðaröryggis.

Eitt er þó víst að hér eftir sem hingað til felst bæði öryggi og stöðugleiki í aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja frið í okkar heimshluta allt rá stofnun. Skrefið sem ríkisstjórn okkar unga lýðveldis tók fyrir sjötíu árum reyndist því mikið heillaskref.  

Birt í Morgunblaðinu 4. apríl 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira