Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2019 Félagsmálaráðuneytið

Uppfærð neysluviðmið

Neysluviðmið fyrir íslensk heimili hafa verið uppfærð á vef félagsmálaráðuneytisins og er það í sjöunda sinn eftir að þau voru birt í fyrsta skipti árið 2011. Þar er líka að finna uppfærða reiknivél neysluviðmiða. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands annaðist uppfærsluna fyrir ráðuneytið. Uppfærslan leiðir í ljós lækkun á flest öllum útgjaldaflokkum neysluviðmiðanna, en þeir eru tólf talsins.

Neysluviðmiðin eru að þessu sinni uppfærð á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2013 -2016, en samkvæmt áætlun er uppfærslan með þeim hætti þriðja hvert ár. Hin árin eru þau uppfærð samkvæmt vísitölu neysluvöruverðs. 

Það er nýmæli í þessari uppfærslu að við útreikning viðmiðs um dæmigerð útgjöld geta notendur reiknivélarinnar valið hvort útreikningarnir miðast við að bifreið sé á heimilinu eða ekki. Sé valið að skoða dæmigerð útgjöld án bifreiðar miðast útreikningarnir við að notaðar séu almenningssamgöngur. 

Rétt er að benda á að allur kostnaður vegna húsnæðis er undanskilinn við gerð neysluviðmiða enda sá kostnaður of breytilegur til að setja megi raunhæf viðmið. Þar sem neysluviðmiðin byggja á ráðstöfunartekjum koma greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda ekki inn í útreikninginn.

Í meðfylgjandi samantekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er fjallað um uppfærslu neysluviðmiðanna 2018, aðferðafræðina að baki útreikningum og gögnin sem byggt er á við uppfærsluna. Þar eru einnig reifaðar helstu mögulegu skýringar á því að viðmiðin lækka frá síðustu uppfærslu.


Nánari upplýsingar um neysluviðmiðin
Reiknivél neysluviðmiða
Neysluviðmið - kynning Hagfræðistofnunar Háskóla Ísland

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira