Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Félagsmálaráðuneytið

Alþjóðavinnumálastofnunin 100 ára

 Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, við setningu ráðstefnunnar Framtíð vinnunnar og breytingar á vinnumarkaði í Hörpu. - myndFélagsmálaráðuneytið. Myndir: BIG

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) fagnar 100 ára afmæli í dag og er þess víða minnst, m.a. í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Grunnurinn var lagður að starfseminni 11. apríl árið 1919 með afgreiðslu skjals sem nokkru síðar varð XIII. kafli friðarsamningsins sem var undirritaður í Versölum 28. júní 1919. Stofnunin varð hluti af Þjóðabandalaginu en hefur verið ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1946.

Ríkisstjórnir Norðurlandanna, í samvinnu við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og samtök aðila vinnumarkaðarins, efndu til samstarfsverkefnis í tilefni afmælisins. Haustið 2017 hófst rannsóknarverkefni sem beinist að breytingum á skipulagi vinnunnar og áhrifum þeirra á norræna vinnumarkaðslíkanið. Enn fremur er sjónum beint að því með hvaða hætti hægt er að hafa áhrif á framvinduna þannig að sá samfélagslegi árangur sem Norðurlöndin hafa náð á svið félags- og vinnumála glatist ekki.

Frá árinu 2016 hafa árlega verið haldnar ráðstefnur um framtíð vinnunnar sem fylgt hafa formennsku í norrænu ráðherranefndinni þar sem tekin hafa verið fyrir afmörkuð verkefni. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Finnlandi árið 2016, önnur í Noregi árið 2017 og sú þriðja í Svíþjóð vorið 2018. Lokaráðstefnan var haldin í Hörpu 4. og 5. apríl síðastliðinn og voru þátttakendur um 340 talsins. Yfirskrift hennar var framtíðarskipan vinnunnar og breytingar á vinnumarkaði. Sérstakur gestur var Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Var það í fyrsta sinn sem forstjóri stofnunarinnar heimsækir Ísland. Ráðstefnuna sóttu sömuleiðis Paula Lehtomäki, nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, vinnumálaráðherrar Norðurlandanna og fulltrúar innlendra og erlendra samtaka aðila vinnumarkaðarins.

Í opnunarræðu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, kom fram að markmið ráðstefnunnar væri að draga fram þætti sem taldir eru eiga erindi í mótun stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á næstu árum.  

Meðfylgjandi eru myndir frá ráðstefnunni. Á heimasíðu hennar ilo2019.is er jafnframt hægt að nálgast glærur fyrirlesara, fleiri myndir frá ráðstefnunni og atburðum í tengslum við hana ásamt streymi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira