Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Ísland á meðal stofnenda mannréttindasjóðs Alþjóðabankans

Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ávarp á stofnviðburði mannréttindasjóðsins - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á gildi mannréttinda í þróunarsamstarfi í ávarpi sem hann flutti við stofnun nýs mannréttindasjóðs Alþjóðabankans í Washington í kvöld. Vorfundir Alþjóðabankans standa nú yfir.

Mannréttindamál eru meðal áherslna Íslands í tvíhliða samstarfi við Alþjóðabankann og nær samstarfið á því sviði til ársins 2006 þegar Ísland hóf að veita framlög til Norræna mannréttindasjóðsins (e. Nordic Trust Fund). Fyrr á þessu ári var ákveðið að stofna nýjan mannréttindasjóð (e. Human Rights and Development Trust Fund, HRDTF) og endurspeglar nafn sjóðsins nú betur starf hans og hlutverk.

Ísland er stofnaðili að sjóðnum, auk Noregs, Finnlands og Hollands. Honum er ætlað að stuðla að öflun þekkingar, fræðslu og verkefnainnleiðingar á sviði mannréttinda þar sem áhersla er lögð á tengsl málaflokksins við starfsemi og rekstur bankans, meðal annars í óstöðugum ríkjum og á átakasvæðum. Sjóðurinn byggist á nýrri og metnaðarfullri mannréttindanálgun í takt við viðmið Sameinuðu þjóðanna.

Í ávarpi sínu á stofnviðburði nýja mannréttindasjóðsins í Washington í kvöld lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi mannréttinda í þróunarsamstarfi og fagnaði tilkomu sjóðsins því samhengi. Hann minntist einnig á setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og að Ísland myndi halda áfram að vinna með alþjóðlegum stofnunum að framgangi mannréttinda í heiminum. „Það er okkur mikil og einlæg ánægja en jafnframt skylda að taka þátt í stofnun þessa nýja sjóðs. Við erum stolt af því að vera á meðal stofnenda hans,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu. 

Þá tók utanríkisráðherra þátt í viðburði og samtali ráðherra og leiðtoga úr atvinnulífinu um mikilvægi mannauðs fyrir þróun, sem Kristalina Georgiva, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, bauð til í tengslum við vorfundinn. Alþjóðbankinn hleypti á síðasta ári af stokkunum nýju verkefni Human Capital Project þar sem grunnhugmyndin er sú að með breyttri heimsmynd, þar sem efnahagsvöxtur byggist í auknum mæli á innleiðingu tækninýjunga, verði jafnframt að beina kastljósinu á mannauð ríkja heims. Meginþema viðburðarins var að deila hugmyndum um hvernig hægt er að stuðla að umbreytingum með því að fjárfesta í mannauði í þróunarlöndum. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 16 Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum