Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landsskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda til 2017 komin út

Umhverfisstofnun hefur skilað skýrslu (National Inventory Report) um losun gróðurhúsalofttegunda til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) þar sem er að finna upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2017. Losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda nam 2900 kt CO2-ígilda (þ.e. 2,9 milljón tonn) árið 2017 og er nánast sú sama og árið 2015.

Sé litið til talna frá árinu 2005 náði losun á beinni ábyrgð stjórnvalda hámarki árið 2007 (3383 kt CO2-ígildi), en var lægst árið 2013 með 2800 kt CO2-ígildi. Milli áranna 2015 og 2016 dróst losunin saman um 1,7%, en milli áranna 2016 og 2017 varð 2,2% aukning. Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru: olíunotkun (um 60% í heild; hlutur vegasamgangna er 34% og fiskiskipa 18%), landbúnaður (húsdýr og áburður, 20%), losun frá kælimiðlum (svokölluð F-gös, 7%) og losun frá meðhöndlun úrgangs (8%). Þróun losunar hvað þessa þætti varðar sést á meðfylgjandi grafi (undir „orku“ fellur losun frá vegasamgöngum, fiskiskipum, olíuknúnum vélum og tækjum og jarðvarmavirkjunum, undir „iðnað“ falla aðallega svokölluð f-gös).

Nær 40% af losun Íslands, einkum frá stóriðju, fellur undir evrópskt viðskiptakerfi (ETS). Þar jókst losun um 2,8% á milli 2016 og 2017. Í heild jókst losun frá Íslandi um 2,5% milli 2016 og 2017, þegar tekið er tillit bæði til losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda og þeirrar sem fellur undir ETS.

Losun jókst á milli 2016 og 2017 m.a. frá fólksbílum (+10%), kælimiðlum (+9%), nytjajarðvegi (áburðarnotkun, +6,4%), málmframleiðslu (+3%) og fiskiskipum (+2,2%). Hins vegar dróst losun saman á milli ára m.a. frá losun úrgangs (-3%) og iðnaði utan stóriðju, þ.m.t. fiskimjölsverksmiðjum (-9%).

Sjá nánari upplýsingar í frétt Umhverfisstofnunar

Skýrsla Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda – National Inventory Report (pdf-skjal)

 

Losun 2005-2017 sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda (kt Co2-ígilda)


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum