Hoppa yfir valmynd
1. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Breytt öryggisumhverfi á norðurslóðum

Guðlaugur Þór Þórðarson leiddi minningarathöfn sem haldin var í tengslum við varnaræfinguna Trident Juncture 2018 - myndSigtryggur Ari Jóhannsson

Ísland tryggir öryggi sitt og varnir með virku samstarfi við önnur ríki, einkum með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis 2019 kemur fram að í þessu samstarfi ábyrgist Ísland rekstur íslenska loftvarnakerfisins, eftirlitskerfa með hafsvæðum, samskiptakerfa og annarra mannvirkja og búnaðar á Íslandi. Með reglulegri loftrýmisgæslu og þátttöku í æfingum bandalagsríkja og norrænna samstarfsríkja er tryggt að fullnægjandi viðbúnaður og þekking sé til staðar til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og mæta áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir á þessu sviði.

 

Liður í þessu samstarfi var þátttaka Íslands í Trident Juncture í fyrrahaust, einni umfangsmestu varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins um langt árabil. Æfingin er til marks um breytt öryggisumhverfi á norðurslóðum og mikilvægi þess að tryggja örugga flutninga yfir Atlantshafið. „Ísland hefur lengi talað gegn frekari hervæðingu á norðurskautinu og vaxandi hernaðarumsvif Rússa á svæðinu vekja því nokkurn ugg,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ræðu sinni á Alþingi í gær. Hann gat þess um leið að kafbátaeftirlit hefði verið aukið til að mæta þessari þróun en í tengslum við þær eru áformaðar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

 

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að atburðir undanfarinna missera hafi leitt til vaxandi áherslu á afvopnun og takmörkun vígbúnaðar á alþjóðavettvangi og nægir í því sambandi að nefna fjölþjóðlega afvopnunarráðstefnu Atlantshafsbandalagsins sem haldin var í Reykjavík í október. Þá er framlag Íslands til friðargæsluverkefna rakið en á liðnu ári störfuðu fjórtán borgaralegir sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar við margvísleg verkefni, allt frá jafnréttismálum til þjálfunar í sprengjueyðingu. 

Þá er í skýrslunni fjallað um samstarf Norðurlanda á sviði varnar- og öryggismála, meðal annars innan vébanda norræna varnarsamstarfsins NORDEFCO en Ísland tekur þátt í borgaralega hluta þess. Á föstudaginn verður kynnt úttekt á framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum og það skoðað hvort óska eigi eftir tillögum um frekara samstarf til næstu tíu ára. „Samstarf á þessu sviði hefur raunar verið sívaxandi þáttur í norrænu samstarfi og Norðurlöndin utan Atlantshafsbandalagsins eiga í náinni samvinnu við allar bandalagsþjóðirnar,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni á Alþingi í gær. 

 

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum