Hoppa yfir valmynd
1. maí 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með Jeremy Corbyn og tekur þátt í umræðum um framtíðaráskoranir í atvinnumálum og um velsældarhagkerfi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi (e. Wellbeing Economy Governments) - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti tvíhliða fund með Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, í breska þinginu í dag. Á fundinum voru einnig John McDonnell, skuggaráðherra fjármála, og Emily Thornberry, skuggaráðherra utanríkismála. Forsætisráðherra og Corbyn ræddu meðal annars um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, efnahagsmál, loftslagsmál og alþjóðasamvinnu. 

Forsætisráðherra tók einnig þátt í hringborðsumræðum á vegum hugveitunnar Fabian Society um framtíðaráskoranir í atvinnumálum en meðal þátttakenda voru Paul Nowak, framkvæmdastjóri Trade Union Congress (TUC) og Ed Miliband, þingmaður og fyrrum formaður Verkmannaflokksins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Við áttum afar áhugaverðar umræður um framtíð vinnunnar og þær áskoranir sem ný tækni hefur í för með sér. Ég ræddi meðal annars um þær breytingar sem geta orðið á íslenskum vinnumarkaði og hefur verið fjallað um í stefnumótunarvinnu stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna.“

Þá tók forsætisráðherra þátt í vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi (e. Wellbeing Economy Governments) í Edinborg í morgun. Þar fjallaði hún um mikilvægi þess að efla þekkingu á velsæld og leiðum til að endurmóta hagkerfið svo það mæti þörfum nýrra tíma. Ísland á aðild að samstarfverkefninu ásamt Skotlandi, Nýja Sjálandi og fleiri ríkjum.

„Loftslagsvandinn er eitt skýrasta merki þess að við þurfum að endurmeta mælikvarða okkar í efnahagsmálum og samfélagsþróun. Á tímum þar sem alþjóðleg samvinna á undir högg að sækja er mikilvægt að smærri ríki leggi sitt af mörkum við að byggja upp sjálfbært efnahagskerfi.“

Fundirnir eru hluti af dagskrá forsætisráðherra í þriggja daga heimsókn hennar til Bretlands. Á morgun mun hún funda með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og flytja fyrirlestur við London School of Economics.

 

Ávarp forsætisráðherra á vinnufundi smærri ríkja um velsældarhagkerfi (e. Wellbeing Economy Governments) í Edinborg.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar - mynd
  •   - mynd
  •   - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum