Hoppa yfir valmynd
2. maí 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með Theresu May

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti tvíhliða fund með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í Downingstræti 10 í morgun. Ráðherrarnir ræddu meðal annars stöðu mála varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, mikilvægi alþjóðasamvinnu og uppgang popúlisma í Evrópu.

Katrín Jakobsdóttir:

„Það er ljóst að sú staða sem uppi er í breskum stjórnmálum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu úr Evrópusambandinu er mjög flókin. Ég tel mikilvægt að Ísland og Bretland haldi sínum góðu tengslum og breski forsætisráðherrann er á sama máli. Nú er tímabært að huga frekar að framtíðarsambandi ríkjanna. Við vorum einnig sammála um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu en hún á víða undir högg að sækja.“

Á fundinum áréttaði forsætisráðherra mikilvægi aðgerða gegn loftslagvandanum en mikil umræða fer nú fram í Bretlandi um þau mál. Ræddu forsætisráðherrarnir meðal annars um aðgerðir til að ná kolefnishlutleysi og um plastmengun í hafi.

Þá ræddu ráðherrarnir einnig jafnréttismál:

„Við ræddum um aðgerðir til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi en Theresa May hefur látið sig þann málaflokk varða á sínum pólitíska ferli. Ég tel mikilvægt að við horfum út fyrir landsteinana til að takast á við þessi mál og á það einnig við mansal og ofbeldi gegn konum og börnum á netinu, en þar hafa bresk stjórnvöld sinnt mikilvægri stefnumótun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.


  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum