Hoppa yfir valmynd
3. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Aðalræðismannsskipti í Nuuk

Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður - myndUtanríkisráðuneytið

Þorbjörn Jónsson sendifulltrúi hefur tekið við stöðu aðalræðismanns Íslands í Nuuk á Grænlandi. Skafti Jónsson, sem gegnt hefur stöðunni frá 2017, kemur heim til starfa í utanríkisráðuneytinu þar sem hann sinnir meðal annars menningarmálum á viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins. 

Þorbjörn, sem er fæddur 1961, er með háskólapróf í rekstrarhagfræði og alþjóðaviðskiptum, auk MBA-gráðu. Hann á að baki langan feril í utanríkisþjónustunni, meðal annars í fastanefnd Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu og í sendiráðum Íslands í París og Moskvu. 

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk var formlega opnuð þann 8. nóvember 2013 en Ísland er eina erlenda ríkið sem hefur sendiskrifstofu í Grænlandi.

Verkefni skrifstofunnar er að auka samskipti og vináttu á milli nágrannalandanna Grænlands og Íslands, að veita Íslendingum á Grænlandi borgaraþjónustu og að stuðla að aukinni verslun og viðskiptum á milli landanna. Ennfremur að kynna Ísland og íslenska menningu fyrir Grænlendingum.

Aðalræðisskrifstofunni er einnig ætlað að hafa samstarf við grænlensk stjórnvöld á þeim sviðum sem heyra undir sjálfstjórn Grænlands og vinna að sameiginlegum málefnum á sviði norðurslóðasamstarfs og vestnorrænnar samvinnu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum