Hoppa yfir valmynd
3. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Borgaraþjónustan ávallt til staðar

Hátt í 50 þúsund Íslendingar eru búsettir erlendis eða, nærri 14 prósent þjóðarinnar. Meginþorri þeirra er í löndum þar sem Ísland er með sendiskrifstofu. Þá eru ótaldir þeir sem eiga fasteignir erlendis og dvelja þar langdvöldum þótt föst búseta sé hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Sendiskrifstofur Íslands og kjörræðismenn sinna borgaraþjónustu árið um kring, gæta hagsmuna og öryggis íslenskra ríkisborgara erlendis og veita þeim ýmiss konar aðstoð. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir borgaraþjónustuna vera eitt mikilvægasta verkefni utanríkisþjónustunnar og því hafi ráðuneytið nýverið hafið stefnumótunarvinnu sem ætlað er að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

Guðlaugur nefndi heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla sem dæmi: „Í aðdraganda mótsins var einnig lögð áhersla á að miðla upplýsingum til íslenskra stuðningsmanna landsliðsins svo að ferðalög þeirra gengju hnökralaust fyrir sig. Borgaraþjónustan stóð vaktina og leysti úr vanda þeirra sem til hennar leituðu í stóru og smáu.“

Sífellt fleiri leggja í ævintýraferðir á framandi slóðir og Íslendingar reiða sig í auknum mæli á ráðleggingar borgaraþjónustunnar á ferðum sínum erlendis. Íslendingar í neyð erlendis geta haft samband við borgaraþjónustuna hvenær sem er sólarhringsins, allt árið um kring í nýju neyðarnúmeri, +354-545-0-112. 

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum