Hoppa yfir valmynd
14. maí 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Menningarsamstarf Íslands og Kína

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Luo Shugang menningar- og ferðamálaráðherra Kína skrifa undir samkomulag um menningarsamstarf landanna.  - mynd
Menningarmálaráðherrar Íslands og Kína skrifuðu í gær undir samkomulag um menningarsamstarf landanna. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmála-ráðherra og Luo Shugang menningar- og ferðamálaráðherra Kína skrifuðu undir yfirlýsingu sem ætlað er að efla samstarf ríkjanna á sviðum sviðslista, myndlistar, barnamenningar, bókmennta, útgáfu og bókasafna. Þá er einnig fjallað um starfsþróun fagfólks á sviði menningar og í skapandi greinum og hvatt til skiptiheimsókna þeirra milli ríkjanna.

„Íslensk menning og sköpunarkraftur finnur sér farveg um allan heim og hefur átt mikilvægan þátt í því að auka orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Kína býr yfir ríkri og fjölskrúðugri menningarhefð sem fróðlegt er að kynnast. Samningar af þessu tagi efla til muna menningarsamskipti landa, auðga með því menningarstarf og liðka fyrir samskiptum á fleiri sviðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.

Íslenska sendiráðið í Peking í Kína skipuleggur fjölmarga menningarviðburði í samráði við kynningarmiðstöðvar íslenskra listgreina og leggur áherslu á að stuðla að framgangi íslenskra listamanna innan Kína og annarra umdæmisríkja sendiráðsins. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína fagnar samningnum og segir að samkomulagið greiði mjög götu sendiráðsins að kínverskum menningarstofnunum og auðveldi skipulagningu viðburða: „Þetta er sérstaklega mikilvægt nú í aðdraganda 50 ára afmælis stjórnmálasambands Íslands og Kína sem haldið verður upp á árið 2021. Norðurlöndin hafa einnig sóst eftir því að vera í sviðsljósinu á alþjóðlegri menningarhátíð í Shanghai næsta vetur og styrkir samkomulagið og fundurinn í dag þá viðleitni.“

Samkomulagið byggir á menningarsamningi landanna sem undirritaður var í Peking árið 1994 og fyrri viljayfirlýsingu um menningarsamstarf sem þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson undirritaði í heimsókn sinni til Kína árið 2015.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði einnig með Gou Zhongwen íþróttamálaráðherra Kína í heimsókn sinni og ræddu þau meðal annars undirbúning Kínverjar vegna Vetrarólympíuleikanna sem fara munu fram í Peking árið 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira