Hoppa yfir valmynd
29. maí 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Norræn menningarkynning í Kanada 2021: Grænn fundur norrænna menningarmálaráðherra

Fundarmenn á Íslandi voru Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir og Karitas H. Gunnarsdóttir frá skrifstofu menningarmála, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Mikael Höysti og Eva Englund frá menningarskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri.  - mynd
Ráðherrar Norðurlandanna funda reglulega á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar en Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2019. Aðild að samstarfinu eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Ráðherrar menningarmála, og fulltrúar þeirra, funduðu í dag og tóku ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu landanna sem fara mun fram í Kanada árið 2021. Að þessu sinni var valið að halda fjarfund sem stýrt var frá Reykjavík en fulltrúar landanna sjö lýstu yfir mikilli ánægju með það framtak.

Skapandi samstarf
„Það er okkur mikil ánægja að kynna Kanada til leiks sem næsta gestgjafa norrænnar menningarkynningar árið 2021. Fyrri kynningar, sem meðal annars hafa verið haldnar í London og Washington, hafa reynst kærkomin tækifæri til þess að auka skapandi samstarf landanna og beint kastljósi heimsins að norrænni menningu í víðum skilningi. Dagskráin í borgum Kanada verður metnaðarfull, fjölbreytt og fræðandi – ég hvet alla til þess að fylgjast vel með þessu verkefni. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Mikill áhugi
Boð voru send til sendiráða Norðurlandanna víðsvegar um heiminn í nóvember þar sem óskað var eftir tilnefningum og hugmyndum að staðsetningu næstu menningarkynningar. Alls bárust 23 tillögur og voru átta valdar til frekari rýni. Verkefnið sem valið er hlýtur rúmar 92 milljónir kr. í styrk til verkefnisins frá Norrænu ráðherranefndinni.

Einnig horft til Brussel
Auk þess að velja Kanada sem gestgjafa fyrir næstu sameiginlegu menningarkynningu ákváðu menningarmálaráðherrarnir að veita styrk til metnaðarfullrar menningardagskrár í Brussel með það fyrir augum að styrkja og auka hlut norrænnar menningar og lista í Evrópu á vettvangi BOZAR, stærstu menningar- og listamiðstöðvar Belgíu, á tímabilinu 2019-20.

Aukin tækifæri 
Markmiðið með sameiginlegri menningarkynningu Norðurlandanna er meðal annars að efla samskipti norrænna listamanna, kynna norræna menningu og skapa aukin tækifæri fyrir þátttakendur. Því var það mat menningarmálaráðherranna að mikilvægt væri að sem flestum gæfist kostur á að tjá sig um tillögurnar. Þær voru sendar til umsagnar yfirvalda, samtaka og menningarstofnana á Norðurlöndum og til norræns ráðgjafarhóps. Sérstaklega var horft til þess að tillögurnar hefðu sterka tengingu við staðinn, alþjóðlega vídd og væru líklegar til þess að vekja áhuga listafólks. Þá var tekið tillit til þverfaglegra áherslna Norrænu ráðherranefndarinnar um mikilvægi sjónarmiða ungs fólks, jafnréttismála og sjálfbærrar þróunar.

Norrænt samstarf
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð eru farvegur opinbers samstarfs Norðurlandanna. Norrænt samstarf miðar að því að Norðurlöndin séu öflug á alþjóðavettvangi og að þau gegni mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu og evrópsku samstarfi. Árið 2016 sameinuðust norrænu forsætisráðherrarnir um það meginmarkmið að Norðurlönd skyldu vera samþættasta svæði í heimi. Formennskuáætlun Íslands byggir á þverfaglegum áherslum Norrænu ráðherranefndarinnar en Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru einnig samofin áherslum hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum