Hoppa yfir valmynd
4. júní 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýsköpunardagur hins opinbera haldinn í fyrsta sinn: Opinberir vinnustaðir virkir í nýsköpun

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í fyrsta sinn í dag fyrir fullu húsi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, í samstarfi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði nýja vefsíðu um opinbera nýsköpun í tilefni dagsins.

Vefsíðan er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að styðja við nýsköpun innan opinberra vinnustaða og verður vettvangur til þess að miðla nýsköpunarverkefnum á milli aðila. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á nýsköpun í landinu og á það einnig við um opinbera þjónustu og stjórnsýslu. Liður í þessu er að Ísland er nú aðili að yfirlýsingu OECD ríkjanna um opinbera nýsköpun sem aðildarríkin skrifuðu undir í maí.

Á deginum sagði Bjarni það vera mikið ánægjuefni hvað opinberir vinnustaðir séu virkir í nýsköpun, en samkvæmt samnorrænni könnun á stöðu nýsköpunar, Nýsköpunarvoginni, hafa 78 % opinberra vinnustaða innleitt að minnsta kosti eitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum. Nýsköpunarverkefni opinberra aðila skila sér í 73% tilfella í auknum gæðum, 67% tilvika í aukinni skilvirkni og í helmingi tilvika eykst starfsánægja, samkvæmt könnuninni.

Á nýsköpunardeginum voru erindi frá opinberum vinnustöðum sem vinna að nýsköpun kynnt og meðal annars fræðst um hvernig má vinna nýsköpun með almenningi og virkja mannauð til umbóta í starfsemi.

Þá voru niðurstöður nýrrar rannsóknar á nýsköpun opinberra vinnustaða kynntar en Daði Már Steinsson, meistaranemi, sagði frá niðurstöðum meistararitgerðar sinnar frá Háskóla Íslands.

Einnig var kynnt nýtt verkefni á vegum ráðuneytisins um nýsköpunarmót sem haldið verður haustið 2019. Mótið er vettvangur til þess að auka samstarf opinberra aðila og einkaaðila. 

Upptöku af fundinum má nálgast á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig verða allar glærur birtar inn á vefnum https://opinbernyskopun.island.is/ 

 

Upptaka af nýsköpunardegi hins opinbera:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum