Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstöður hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði

Vinningstillaga BASALT arkitekta og EFLU verkfræðistofu - mynd

BASALT arkítektar ásamt verkfræðistofunni EFLU voru hlutskarpastir í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili sem byggt verður á Höfn í Hornafirði. Sautján tillögur bárust, þrjár hlutu verðlaun og tvær viðurkenningu. Niðurstöður dómnefndar eru meðfylgjandi.

Nýja hjúkrunarheimilið mun rísa á Höfn í Hornafirði og leysa af hólmi eldra heimili sem uppfyllir ekki kröfur nútímans varðandi húsnæði og aðbúnað. Stefnt er að því að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst í byrjun árs 2020 og að heimilið verði tekið í notkun vorið 2021.

Megináherslur dómnefndarinnar

Við mat dómnefndar á tillögum þátttakenda voru lagðar eftirfarandi megináherslur:

• Að fá fram hugmyndir að vistlegu heimili fyrir einstaklinga sem þurfa á langvarandi umönnunar og hjúkrunarþjónustu að halda.

• Að skapa góð rými til útivistar fyrir heimilismenn og góða aðkomu að lóð.

• Að herbergi einstaklinga séu haganlega útfærð og tryggð sé góð vinnuaðstaða starfsmanna.

• Að horft sé til framtíðar í tæknilegum lausnum er auðveldað geta daglegt líf heimilisfólks og vinnu starfsmanna.

• Að ytra og innra fyrirkomulag sé til fyrirmyndar hvað varðar aðgengi og öryggismál.

• Að byggingin verði hagkvæm með hliðsjón af framkvæmda- og rekstrarkostnaði byggingarinnar.

• Að húsnæðið tryggi hagkvæmni í daglegum rekstri eins og í starfsmannahaldi. Þar er meðal annars átt við að starfsfólk geti haft góða yfirsýn innan eininga og á milli eininga og jafnframt að helstu vegalengdir verði sem stystar.

• Að nýbyggingin endurspegli vandaða byggingarlist er fellur vel að umhverfi sínu.

• Að umhverfissjónarmið og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við útfærslu byggingar og lóðar.

Einnig var horft til þess hvernig unnið var með einstakt útsýni frá lóðinni auk tenginga við núverandi hjúkrunarheimili.

Við val sitt lagði dómnefndin áherslu á lausnir með góðu innra skipulagi og heimilislegu yfirbragði ásamt aðstöðu til útivistar þar sem aðgengi og öryggismál væru höfð að leiðarljósi og góð vinnuaðstaða fyrir starfsmenn tryggð. Horft var til þess að byggingin væri hagkvæm með hliðsjón af framkvæmda- og rekstrarkostnaði. Þá var einnig horft til þess hvort byggingin félli vel að umhverfi sínu og endurspeglaði vandaða byggingarlist.

Niðurstaða dómnefndar var að veita verðlaun þremur tillögum sem svöruðu best að mati hennar og þeim væntingum sem lýst er í samkeppnislýsingu, auk þess sem tvær tillögur að auki hlutu viðurkenningu vegna áhugaverðra lausna og atriða sem dómnefnd taldi rétt að vekja á athygli.

Um vinningstillögu BASALT arkítekta og EFLU

Í umsögn dómnefndar um vinningstillögu BASALT arkítekta og EFLU verkfræðistofu kemur fram að tillagan uppfylli flest þeirra markmiða sem dómnefndin lagði til grundvallar. Þar segir meðal annars: „Tillagan er byggð á Eden hugmyndafræðinni með áherslu á lífsgæði og vellíðan íbúa. Byggingin lágmarkar skuggamyndun og hógværð er sýnd með tilliti til umhverfis og aðlögunar að núverandi arkitektúr.“

Í öðru sæti hönnunarkeppninnar voru Andersen & Sigurdsson arkítektar og í þriðja sæti Zeppelin arkítektar.

Heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður stóðu að hönnunarsamkeppninni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Vinnan við samkeppnina var í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af verkkaupum og Arkitektafélagi Íslands. Formaður dómnefndarinnar var Guðlaug Einarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Öll gögn samkeppninnar og gagnaskil voru rafræn. Þetta er í fyrsta sinn sem aðilar fara þá leið og var það samkomulag þeirra að þessi keppni yrði frumraun í þeim efnum. Þessi leið þótti gefast vel og var án vandkvæða.

Öll gögn tengd hönnunarsamkeppninni:

Sigurtillaga:

1. verðlaun: Sigurtillaga Basalt og Eflu

Keyptar tillögur:

2. verðlaun: Tillaga nr. 10

3. verðlaun - Tillaga nr. 9

Viðurkenning - Tillaga nr. 2

Viðurkenning - Tillaga nr. 8

Aðrar tillögur:

Tillaga nr. 1 - 30001

Tillaga nr. 3 - 1511202

Tillaga nr. 4 - 1878697

Tillaga nr. 5 - 2145095

Tillaga nr. 6 - 2709663

Tillaga nr. 7 - 2986082

Tillaga nr. 11 - 4100222

Tillaga nr. 12 - 4585000

Tillaga nr. 14 - 6083364

Tillaga nr. 15 - 6366116

Tillaga nr. 16 - 6562289

Tillaga nr. 17 - 9337152

Allar frekari upplýsingar um samkeppnina veitir Gíslína Guðmundsdóttir, verkefnastjóri FSR. 

Mynd: Frá kynningu á niðurstöðum dómnefndarinnar á Höfn í Hornafirði 20. júní 2019.

 

 

  • Dómnefndin - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum