Hoppa yfir valmynd
11. október 2019 Innviðaráðuneytið

Sjálfbærni sveitarfélaga - ávarp á fundi SSA

Ræða á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Borgarfirði eystri 11. október 2019

Ágæta sveitarstjórnarfólk. Ég þakka fyrir boðið um að ávarpa haustþing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hér á Borgarfirði eystri. Það er alltaf gott að koma hingað og eiga með ykkur samtal og skiptast á skoðunum um málefni líðandi stundar. Það var sérstaklega ánægjulegt að keyra hingað á Borgarfjörð í dag á svona nýjum og góðum vegi sem kominn er.

Samvinna heimamanna – nýsköpun í stjórnsýslu

Í gegnum tíðina hafa Austfirðingar sýnt mikið frumkvæði þegar kemur að samstarfi sveitarfélaga og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því. Það var einmitt hér á Austurlandi sem fyrstu landshlutasamtök sveitarfélaga voru stofnuð, árið 1966. Allir hinir landshlutarnir fylgdu í kjölfarið og stofnuðu með sér samtök sveitarfélaga, byggða á kjördæmaskipan frá árinu 1959. 

Austfirðingar voru líka fyrstir til að setja sínar stoðstofnanir undir einn hatt, þegar Austurbrú varð til árið 2012. Svona mætti áfram telja þegar kemur að öflugu samstarfi sveitarstjórnarmanna á Austurlandi. Þetta mikla og góða samstarf heimamanna hefur vakið verðskuldaða athygli og er í raun nýsköpun í opinberri stjórnsýslu. 

Austfirðingar hafa líka lagt sitt af mörkum þegar kemur að sameiningu sveitarfélaga og enn er tíðinda að vænta í lok þessa mánaðar þegar fjögur sveitarfélög kjósa um sameiningu. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með þeirri vinnu og ef af sameiningu verður þá mun enn ein nýsköpun í opinberri stjórnsýslu verða til hér á Austurlandi. Þar er ég að tala um heimastjórnirnar fjórar sem ráðgert er að setja upp inn í nýtt stjórnskipulag hins nýja sveitarfélags. 

Þá má ekki gleyma almenningssamgöngum en þar hafið þið sýnt mikið frumkvæði og stefnir í að þið verðið eini landshlutinn sem hefur gert samning við ríkið um að vinna áfram með það fyrir augum að heimamenn sjálfir sjái um rekstur og skipulag.

Íbúaþróun

Ég vil halda því fram að þessi mikla samstaða heimamanna hér sé meðal ykkar helstu styrkleika. Með samstöðunni hafið þið áorkað miklu, meðal annars því að hér reis álver Alcoa á Reyðarfirði, sem er stærsta iðnfyrirtæki landsins. 

Fjölgun íbúa hefur vissulega verið mest á svæðum nærri höfuðborgarsvæðinu – Hvítár-Hvítársvæðið er það svæði á Íslandi sem vaxið hefur hraðast undanfarin ár og það er vissulega áhyggjuefni að svæðin fjarri höfuðborgarsvæðinu halda ekki í við landsmeðaltalið hvað þróun íbúafjölda varðar, og sums staðar er fækkun sem er ekki gott. Þó svo að íbúum á Austurlandi hafi fjölgað undanfarið, hefur ekki tekist að halda í við fjölgunina á landsvísu. Þannig voru Austfirðingar 3,9% allra Íslendinga árið 2010 en voru í upphafi árs 2019 3,7%. 

Engu að síður blómstrar atvinnulíf víða um land og mjög ánægjulegt er að sjá hvernig þið hér á Austurlandi hafið náð styrkja stoðir ykkar hvað á ýmsum sviðum, svo sem í ferðaþjónustu og skapandi greinum. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er gott dæmi um það, en þar er í gangi tilraunaverkefni um byggðaþróun á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Það hefur verið ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að styðja við það verkefni, en í gegnum Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur það fengið styrk að upphæð 62,5 milljónir á tímabilinu 2018-2021 sem kemur í gegnum eina af aðgerðum byggðaáætlunar, sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. 

Nýsköpun er lykilorð á þessu sviði sem öðrum, við þurfum að  hugsa í nýjum lausnum – leita leiða til að skapa og endurhanna í okkar samfélagi, til að bæta þjónustuna við íbúana, til að styrkja stoðir atvinnulífs, til að laða að nýja íbúa – til að vaxa og dafna á sjálfbæran hátt.

Sóknaráætlanir landshluta

Og hér skipta sveitarfélögin miklu máli – þið, kæra sveitarstjórnarfólk, hafið verið valin til að leiða ykkar samfélög áfram og sækja fram fyrir ykkar íbúa. Það getið þið auðvitað gert á forsendum hvers sveitarfélags en samstarfið er líka mikilvægt, sameinuð eruð þið sterkari og það eru ótal dæmi um það.

Ég er mjög ánægður með hvernig samvinna sveitarfélaga á vettvangi sóknaráætlana landshluta hafa verið að þróast og hvernig almennt til hefur tekist í því sambandi.

Nýleg úttekt á sóknaráætlunum landshluta kemst að þeirri niðurstöðu að stoðir menningar í landshlutum hafi styrkst og að einhverju leyti samkeppnishæfni þeirra. Margar góðar ábendingar er að finna í úttektinni sem ég geri ráð fyrir að þið horfið til við mótun nýrrar sóknaráætlunar fyrir Austurland. M.a. er bent á að skynsamlegt væri að búa til hvata í uppbyggingarsjóði, sérstaklega þann hluta sem snýr að atvinnuþróun- og nýsköpun, og nota þannig sóknaráætlanir sem tæki til að auka samkeppnishæfni landshlutanna.

Þá er í skýrslunni bent á að áhersluverkefni landshluta séu oft á tíðum ansi mörg og fjármagni þar af leiðandi of þunnt smurt. Þetta á hins vegar ekki við um hér á Austurlandi og vil ég nota tækifærið til að hrósa ykkur fyrir það. Kannski er það einmitt þessi mikla hefð fyrir samvinnu sem hefur leitt af sér að þið hafið valið færri en stærri verkefni sem hafa þannig meiri slagkraft til að styrkja svæðið sem heild. 

Það er líka mikið í húfi því á síðasta ári runnu samtals 156 milljónir til sóknaráætlunar Austurlands og þar af var framlag frá ríkinu um 122 milljónir. Fjármagnið fór í menningartengda þætti, styrkingu innviða, uppbyggingar ferðaþjónustu og til nýsköpunar. 

Með sóknaráætlunum kemur fram raunverulegur vilji ríkisins til að fela heimamönnum í hverjum landshluta aukið vald og aukna ábyrgð.

Ég hef heyrt að Austfirðingar séu langt komnir með að vinnu við nýja sóknaráætlun sem ná mun til næstu fimm ára, 2020-2024. Hef líka heyrt að sú vinna gangi vel og að ný sóknaráætlun Austurlands verði jafnvel enn betra og öflugra tæki. 

En það er einmitt það sem sóknaráætlun er og á að vera. Hún snýst ekki bara um það fjármagn sem lagt er til hennar samkvæmt samningi – þó svo að vissulega sé það mikilvægt – heldur er sóknaráætlun miklu meira og getur þannig nýst landshlutanum á ótal vegu. 

Byggðaáætlun

Byggðaáætlun gegnir einnig lykilhlutverki í að vinna að umbótum og nýsköpun í atvinnulífi. Hún er mikilvægt stjórntæki fyrir ríkisvaldið og einnig sveitarfélögin, og með henni viljum við leita leiða til að tvinna byggðamálin saman við alla málaflokka.

Ég hef talað um að við þurfum að setja upp byggðagleraugun sem víðast – líkt og talað er um jafnréttismálin. Byggðamál eru allsherjarmál, hér bera allir ábyrgð. Ekki bara ríki, eða sveitarfélög, heldur einnig atvinnulífið.

Á því rúma ári sem liðið er frá samþykkt nýrrar byggðaáætlunar hefur margt jákvætt gerst. Okkur hefur tekist á mörgum sviðum að styðja við mörg brýn verkefni á landsbyggðinni.

Ég nefndi áðan sértæk verkefni sóknaráætlana landshluta, sem hafa fengið myndarlegan stuðning og leitt til atvinnusköpunar.

Við þekkjum öll hve vel hefur tekist til við að vinna að framgangi verkefnisins Ísland ljóstengt, en þar hefur byggðaáætlun lagt 100 m.kr. árlega til að aðstoða sveitarfélög og svæði sem standa höllum fæti í samkeppni við önnur um tengingar. Þetta hefur haft það í för með sér að við erum að ná einstökum árangri í þessu verkefni.

Næsta stórátak í innviðauppbyggingu sem byggðaáætlun kemur að tengist þrífösun rafmagns. Það er að hluta hafið meðal annars á ykkar svæði og við fáum að heyra nánar um þau áform þegar líður á haustið.

Byggðaáætlun styður einnig verkefni á sviði félags- og heilbrigðismála. Þannig má nefna tvær aðgerðir sem áætlunin leggur til fé til, annars vegar innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu og hins vegar til að jafna aðgang að sérfræðilæknum. Hér eru raunveruleg tækifæri til að bæta aðstæður fólks um land allt, tryggja betra aðgengi að þjónustu og lækka kostnað við ferðalög.

Þannig að ég get bara verið sáttur við hvernig til hefur tekist við framgang áætlunarinnar og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf á því sviði.

Áskoranir í atvinnulífi

Ágæta sveitarstjórnarfólk. 

En þó vel hafi gengið í atvinnulífi þjóðarinnar á umliðnum árum, með tilkomu stóraukins fjölda ferðamanna og nýsköpunar á mörgum sviðum atvinnulífsins, m.a. í sjávarútvegi og líftækni, þá vitum við að góðu árin koma og fara. 

Það hafa verið ýmsar blikur á lofti sem þarf að horfa til við stjórn efnahagsmála og á sumum sviðum er samdráttur kominn fram. 

Þetta sýnir þó að hlutirnir geta breyst hratt og samfélagið allt, ekki síst ríki og sveitarfélög, þurfa á hverjum tíma að vera í stakk búin til að mæta áföllum, til að takast á við óvæntar uppákomur í atvinnulífi, eða almennt að geta stutt við samfélagið sama hvernig árar. 

Ríkisstjórnin er að takast á við þessar áskoranir fyrir landið í heild. 

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu í kjölfar samdráttar í ferðamennsku og loðnubrests. 

Það er gert án þess að hverfa þurfi frá áformum um uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins við samfélagið á grundvelli þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár við að byggja upp fjárhagslegan styrk ríkissjóðs. 

Í samræmi við nýlega endurskoðun á fjármálastefnu til fimm ára verður dregið úr áður fyrirhuguðum afgangi af rekstri ríkissjóðs á meðan hagkerfið leitar jafnvægis og fær fótfestu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Leiðarljós þeirrar hagstjórnar er að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum.

Hér skiptir ábyrg fjármálastjórn sköpum, en um leið þarf að horfa til heildarhagsmuna samfélagsins og til framtíðar, um leið og við forgangsröðun.

Sem fyrr er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins. Aukin framlög til opinberra framkvæmda í fjárlagafrumvarpinu vega upp á móti minnkandi atvinnuvegafjárfestingu og eru liður í aðgerðum til að milda áhrif niðursveiflu. 

Hlutfallsleg útgjaldaaukning hefur verið mest í samgöngu- og fjarskiptamálum á kjörtímabilinu, eða 25% að raungildi. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir ríflega 28 ma.kr. framlögum til fjárfestinga í samgöngum. Þetta eru góðar fréttir, því ekki veitir af eins og þið vitið öll. 

Þá verður aukinn kraftur settur í uppbyggingu nýs Landspítala. Framlög til verkefnisins verða samtals 8,5 ma.kr. á árinu 2020 en bygging spítalans er stærsta einstaka fjárfestingaverkefni ríkisins. Meðal annara stórra fjárfestingaverkefna má nefna kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, framlög vegna smíði nýs hafrannsóknarskips og byggingu Húss íslenskunnar. Alls nema framlög til fjárfestinga ríflega 78 ma.kr. og hafa aukist um rúma 27 ma.kr. að raungildi frá árinu 2017.

Framkvæmdir á Austurlandi – Ný samgönguáætlun

Vegir

Ný samgönguáætlun boðar bæði talsverðar samgöngubætur fyrir Austurland. Felst það bæði í flýtingu einstakra verkefna sem og að ný verkefni hafa bæst við. 

Fyrst ber að nefna að á ný verður þar sett fram sérstök jarðgangaáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Fjarðarheiðargöng eru þar sett í forgang, í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að á gildistíma áætlunarinnar muni verkefnið klárast. Í kjölfarið verði svo farið í framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og svo frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu sem gæti gerbreytt aðstæðum til hins betra á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Stefnt er að því að tekin verði upp sérstök gjaldtaka af umferð í jarðgöngum á Íslandi. Sú innheimta mun fjármagna rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem uppá vantar í framkvæmdakostnað.

Til að mynda er lagt til að framkvæmdir við Hornafjarðarfljót og Axarveg verði flýtt og að þau verði unnin sem samvinnuverkefni á milli opinberra aðila og einkaaðila. Sérstakt félag, líkt og Hvalfjarðagangamódelið, héldi utan um bæði hvaðan tekjur koma og hvert þær fara. 
Fyrir utan að styrkja grundvöll byggðar og atvinnustarfsemi um allt land, auka þessar framkvæmdir öryggi og stytta vegalengdir og spara þannig þjóðfélaginu slysakostnað og draga úr samgöngukostnaði vegfarenda. 

Nýjar stefnur – flug og almenningssamgöngur

Nýjar stefnur í flugmálum og almenningssamgöngum fylgja samgönguáætlun. Í báðum áætlunum eru lagaðar til áherslur og leiðir til þess að styrkja grundvöll þjónustunnar landsmönnum öllum til hagsbóta. 

Í flugstefnunni er lögð áhersla á að til verði skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla þar sem lögð er áhersla á að byggðir verði upp innviðir og er Egilsstaðaflugvöllur í forgangi að því leiti.

Í almenningssamgöngum er lögð áhersla á að til verði heildstætt leiðarkerfi innanlandsflugs, almenningsvagna og ferja séu skipulögð með samþættum hætti þannig að leiðir tengist. Það þýðir t.d. að hægt verði að fljúga til Reykjavíkurflugvallar og taka strætó þaðan á Keflavíkurflugvöll þannig búa þannig til tengingu milli innanlands- og millilandaflugs. Einnig þarf að auðvelda aðgengi og upplýsingaöflun farþega um þjónustuna. Leitað verði leiða til að styrkja samkeppnishæfni fararmátans og það hvernig hann geti styrkt vinnu- og skólasóknarsvæði. Dæmi um aðgerð í þá átt er aukin kostnaðarþáttaka hins opinbera í farmiðaverði innanlandsflugs, sem stefnt er á að verði komin til framkvæmda á næsta ári.

Sjálfbær sveitarfélög 

Nýrri tillögu til þingsályktunar um stefnumótun ríkisins í málefnum sveitarfélaga er ætlað að auka sjálfbærni sveitarstjórnarstigins á landsvísu. Sjálfbærni þarf að vera leiðarljós fyrir okkur á öllum sviðum, í umhverfismálum, félagsmálum og efnahagsmálum, öll okkar stefnumótun og aðgerðir þurfa að miða við það.

Markmið stefnunnar eru skýr, en þau eru

  • að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi,
  • að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt
  • og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaráætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum. 

Þetta er metnaðarfull áætlun – og við það stend ég þó ég viti að mörgum finnist tillagan sumpart ganga of skammt og öðrum of langt. 

Ég er hins vegar sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið og bæta þjónustu við íbúana.

Það var því mjög ánægjulegt að aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga skyldi bakka stefnumörkunina upp með svo afgerandi hætti sem raun bar vitni, það gefur mjög góð fyrirheit um framhaldið. 

Ég vil líka hrósa forystu sambandsins fyrir framsýni og faglega nálgun í þessu verkefni öllu.

Kæra sveitarstjórnarfólk.

Verum bjartsýn og jákvæð, framtíðin ef björt og ef við stöndum saman og vöndum okkur við það sem við erum að gera. 

Við erum að þjóna íbúum sveitarfélaganna, einstaklingum, fjölskyldum, fullorðnum en ekki síst börnum. Það er okkar metnaður að vinna af dugnaði og heiðarleika fyrir land og þjóð með samvinnuna sem leiðarljós.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum