Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjóð undir þaki - húsnæðisþing 27. nóvember

Frá Reykjavík - myndHugi Ólafsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, boðar til húsnæðisþings þriðja árið í röð miðvikudaginn 27. nóvember næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica. Húsnæðisþingið er vettvangur fyrir alla þá fjölmörgu aðila sem koma að húsnæðismálum til að hittast og ráða ráðum sínum. Þingið skal haldið árlega af félagsmálaráðherra og Íbúðalánasjóði, samkvæmt lögum sem sett voru í fyrra.

Á húsnæðisþinginu í ár verður meðal annars fjallað um fast­eigna- og leigu­markaðinn, aðkomu stjórn­valda, byggingargátt, húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og átakshóp í húsnæðismálum auk þess sem ólíkur húsnæðisvandi höfuðborg­ar­svæðisins og lands­byggðarinnar verður til umfjöllunar.

Yfirskriftin í ár er „Þjóð undir þaki – jafnrétti og jafnvægi á húsnæðismarkaði“ sem undirstrikar fyrst og fremst mikilvægi aðgengis allra að húsnæði við hæfi. Jafnvægið vísar í að uppbygging þurfi að vera í takti við þörf og að hún skapi fólki heilnæmt og gott umhverfi.

Í dag var svo vefurinn husnaedisthing.is settur í loftið. Þar er hægt að nálgast glærur og upptökur frá húsnæðisþingum síðustu ára ásamt því að skrá sig til þátttöku á komandi þing. Aðgangur að húsnæðisþinginu er öllum opinn og ókeypis. Lögð er áhersla á þátttöku almennings auk embættismanna, stjórnmálamanna og annarra sem starfa á bygginga-, lána- og húsnæðismarkaði.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum