Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrirlestur ráðherra hjá Swedbank

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flutti fyrirlestur í fundaröð sænska bankans Swedbank á dögunum. Hún var stödd í Svíþjóð til að kynna sér menntaumbætur sem sænsk stjórnvöld hafa ráðist í undanfarin ár og bauð Jens Henriksson, forstjóri bankans, ráðherra að taka þátt í fundaröðinni Swedbank CEO Talks. Markmið þeirrar fundaraðar er að veita lykilfjárfestum og viðskiptavinum bankans tækifæri til að fræðast um efnahagsmál og stjórnmál.

Í fyrirlestri sínum fjallaði ráðherra um stöðu og þróun efnahagsmála á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Ráðherra veitti innsýn í óvenjulegar en nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda til að ná tökum á efnahagslífi landsins. Þá fjallaði hún einnig um áskoranir í menntamálum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar, mikilvægi fjárfestinga í menntakerfinu og hvernig gæðamenntun mun styrkja samkeppnishæfi þjóða til framtíðar.

„Það er mér mikill heiður að fá boð um að ávarpa þennan hóp og segja frá árangri íslenskra stjórnvalda í að rétta af efnahag landsins. Það var einnig sérlega ánægjulegt að fjárfestar Swedbank tóku undir það að lykillinn að áframhaldandi velsæld væru innviðafjárfestingar í menntakerfinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum