Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2020

Hægt að sækja um Schengen-áritanir í þremur indverskum borgum til viðbótar

Sendiráð Íslands í Nýju-Delí opnaði fyrr í þessum mánuði fyrir móttöku umsókna um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands í þremur indverskum borgum. Samtals er því tekið við umsóknum í níu borgum í landinu. 

Borgirnar þrjár sem bættust við í síðustu viku eru Pune, Kochi og Chennai. Umsækjendur í þessum borgum geta nú sótt um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands á afgreiðslustöðum þjónustufyrirtækisins VFS Global. Þegar var hægt að sækja um áritanir í borgunum Chandigarh, Goa, Kolkata, Bangalore og Mumbai, auk höfuðborgarinnar Nýju-Delí og borgirnar því orðnar níu.

Í byrjun mars verða tveir staðir til viðbótar opnaðir og verður þá alls hægt að sækja um áritun til Íslands í ellefu indverskum borgum á Indlandi.

Danska sendiráðið í Nýju-Delí hefur undanfarin ár séð um afgreiðslu umsókna og útgáfu Schengen-áritana til Íslands, en með opnun afgreiðslustaða í fyrrgreindum borgum tekur íslenska sendiráðið alfarið yfir afgreiðsluna á Indlandi. Er það m.a. liður í að bæta þjónustuna við erlenda ferðamenn sem hingað koma frá Indlandi og styðja um leið við íslenska ferðaþjónustu.

Loks má geta þess að umsækjendur á Indlandi og í Bandaríkjunum geta nú forskráð umsókn með rafrænum hætti á vef Útlendingastofnunar áður en komið er til afgreiðslustaðar með vegabréf og fylgiskjöl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum