Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

​Jóhanna Fjóla skipuð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til næstu fimm ára. Ákvörðun ráðherra um skipun hennar í embættið er tekin að undangengnu mati lögskipaðrar hæfnisnefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana.

Jóhanna Fjóla  hefur gengt embætti forstjóra stofnunarinnar um skeið og starfað hjá stofnuninni frá því að hún var sett á fót. Hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar og rekstrar og starfað sem verkefnastjóri þróunar- og gæðamála. Á árunum 2000 – 2009 var Jóhanna Fjóla verkefnastjóri hjúkrunar en fyrir þann tíma starfaði hún við Sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún var m.a. hjúkrunarforstjóri um eins árs skeið.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Stofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands sem nær yfir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra. Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum