Hoppa yfir valmynd
30. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Efnahagsleg loftbrú

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2020

Í febrúar 1936 birtist byltingarkennd hagfræðikenning fyrst á prenti. John M. Keynes hafði legið undir feldi við rannsóknir á kreppunni miklu, þar sem neikvæður spírall dró kraftinn úr hagkerfum um allan heim. Niðursveifla og markaðsbrestur snarfækkaði störfum, minnkaði kaupmátt og í leiðinni tekjur hins opinbera, sem hélt að sér höndum til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórnvöld dýpkað kreppuna og valdið óbætanlegu tjóni. Þvert á móti hefði hið opinbera átt að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum, ráðast í opinberar framkvæmdir og eyða tímabundið um efni fram. Þannig væru ákveðin umsvif í hagkerfinu tryggð, þar til kerfið yrði sjálfbært að nýju. Þegar þeim áfanga yrði náð ætti hið opinbera að draga saman seglin og safna í sjóði, svo hagkerfið ofhitnaði ekki. Í stuttu máli; ríkið á að eyða peningum í kreppu, en halda að sér höndum í góðæri til að vega á móti hagsveiflunni á hverjum tíma

Fólkið
Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru fordæmalausar. Markmið aðgerðanna er fyrst og fremst að styðja við grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja og veita öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf á óvissutímum. Íslenska þjóðarbúið er í góðri stöðu til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan. Þróttur þess er umtalsverður, skuldastaða ríkissjóðs er góð og erlend staða þjóðarbúsins jákvæð. Það er ekki einungis staða ríkissjóðs sem er sterk heldur standa heimili og fyrirtæki landsins nokkuð vel auk þess sem kaupmáttur heimilanna hefur aukist mikið. Engu að síður hafði atvinnuleysi vaxið í aðdraganda Covid-19. Vinnumarkaðurinn, og þar af leiðandi mörg heimili í landinu, er því í viðkvæmri stöðu. Aðgerðir stjórnvalda miða að fólkinu í landinu og því hafa greiðslur verið tryggðar til fólks í sóttkví. Hlutastarfaleið stjórnvalda er ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði. Þessi leið mun styðja við áframhaldandi vinnu tugþúsunda einstaklinga og verða atvinnuleysisbætur því greiddar til þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli. Þetta á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna viðhaldsvinnu við heimili verður hækkuð úr 60% í 100%. Loks verður greiddur út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri.

Fyrirtæki
Atvinnuleysi óx nokkuð í aðdraganda faraldursins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru útfærðar sérstaklega með það í huga að koma í veg fyrir varanlegan atvinnumissi fjölda fólks og að fjöldi fyrirtækja fari í þrot. Frestun á gjalddögum staðgreiðslu, tryggingagjalds og fyrirframgreidds tekjuskatts fyrirtækja kemur til móts við þá stöðu sem upp er komin. Þá er tryggð full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbætur, viðhald og nýbyggingar. Stjórnvöld munu einnig ábyrgjast helming brúarlána, sem er ætlað að styðja fyrirtæki í rekstrarvanda og þannig styðja þau til að greiða laun og annan rekstrarkostnað. Aðgerðirnar miða að því að efla einkaneyslu, fjárfestingar og samneyslu. Vöruviðskipti skipta mjög miklu máli þessa dagana og því vilja stjórnvöld auðvelda innflutning með niðurfellingu tollafgreiðslugjalda og frestun aðflutningsgjalda. Þá verður farið í sérstakt tug milljarða kr. fjárfestingarátak, þar sem hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði. Stefnt er að því að fjölga störfum, efla nýsköpun og fjárfesta til framtíðar. Þar af verður verulegum fjárhæðum varið í að efla menningu, íþróttastarf og rannsóknir.

Með þessum aðgerðum eru stjórnvöld að stíga mikilvægt skref til að veita viðspyrnu og mynda efnahagslega loftbrú. Á sínum tíma sá loftbrú Berlínarbúum fyrir nauðsynjavörum á erfiðum tíma í sögu Evrópu. Sú loftbrú sýndi samstöðu og samvinnu fólks þegar á reyndi. Ljóst er að verkefnið er stórt en grunnstoðir íslensks samfélags eru sterkar og því mun birta til. Hagfræðikenning John M. Keynes, sem í fyrstu þótti byltingarkennd, er óumdeild í dag. Fræðilega gengur hún upp, en krefst aga af stjórnvöldum og samfélögum á hverjum tíma. Ætlan íslenskra stjórnvalda er að sýna þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er til að tryggja hag fólksins í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum