Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2020 Matvælaráðuneytið

Starfshópur um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna hefur skilað tillögum

Starfshópur um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna hefur skilað tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem miða að því að efla dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum, bæta starfsskilyrði dýralækna og tryggja að Matvælastofnun geti sinnt lögbundu eftirlitshlutverki sínu á skilvirkan og árangsríkan hátt. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði starfshópinn haustið 2019. Full samstaða var um tillögurnar og lúta meginatriði þeirra að eftirfarandi þáttum:

 

Fjölgun þjónustudýralækna og sveigjanlegra starfsumhverfi

Samtímis breytingum á þjónustusvæðum og mönnun þeirra fjölgi þjónustudýralæknum úr 10 í 11 miðað við fullt starf. Viðmið við 50% starf verði í boði og dýralæknum Matvælastofnunar gert kleift að sinna almennri dýralæknaþjónustu í afleysingum. Markmiðið er að hver þjónustudýralæknir eigi kost á að skipta vöktum á móti a.m.k. einum öðrum dýralækni.

Eftirlitsstörf fyrir Matvælastofnun

Þjónustudýralæknum og öðrum sjálfstætt starfandi dýralæknum í dreifðum byggðum standi til boða samningar um eftirlitsstörf fyrir MAST. Þannig verði stuðlað að aukinni velferð dýra og auknu öryggi í meðferð dýraafurða samtímis því að starfs- og tekjugrundvöllur dýralækna í dreifðum byggðum er styrktur.  

Bakvaktaþjónusta dýralækna löguð að aðstæðum

Með samstarfi milli vaktsvæða verði dýralæknum gert kleift að laga bakvaktþjónustuna að aðstæðum og hafa stjórn á álaginu sem henni fylgir. Utan dagvinnutíma verði áfram hægt að ná sambandi við dýralækni í tiltekið símanúmer og fá eftir atvikum við­eig­andi ráðgjöf og leiðbeiningar.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fagnar því að tillögur starfshópsins liggi fyrir. Tillögurnar eru til þess fallnar að skapa meiri sátt um mikilvæga þjónustu dýralækna í hinum dreifðu byggðum landsins auk þess sem þær efla mikilvæga starfsemi Matvælastofnunar. Ráðherra hefur þegar samþykkt að hefja vinnu við útfærslu og innleiðingu tillagnanna og Matvælastofnun hefur hafið gerð nýrra þjónustusamninga með hliðsjón af þeim sem ætlunin er að taki gildi 1. maí nk.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum