Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Íslenskt hugvit á alþjóðlegum kynningarfundi um viðbrögð við COVID-19

Málstofan fór fram með rafrænum hætti. - mynd

Í dag fór fram sérstök málstofa (e. webinar) Norræna nýsköpunarhússins í Singapúr (NIH-SG) og nýsköpunarskrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna þar í landi (UNDP Singapore Global Centre for Technology, Innovation and Sustainable Development) undir yfirskriftinni „Learn how Nordic countries and Singapore use digital tools to fight Covid-19“.

Á málstofunni kynntu fulltrúar Norðurlanda og Singapúr stafrænar lausnir landanna í baráttunni við COVID-19 auk þess sem fyrirtæki kynntu sínar lausnir.

Yfir 450 gestir tóku þátt í málstofunni víðs vegar að úr heiminum. Ingi Steinar Ingason teymisstjóri í miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis var fulltrúi Íslands í málstofunni. Erindi Inga vakti mikla athygli þátttakenda en í erindi sínu rakti Ingi sögu og þróun snjallforritsins Rakning C-19 auk annarra stafrænna lausna sem hafa verið í notkun á Íslandi.

Meðal annarra fyrirlesara á málstofunni voru Bradley Busetto, framkvæmdastjóri skrifstofu UNDP í Singapúr, Chee Hau Tan, skrifstofustjóri Smart Nation and Digital Government hjá skrifstofu forsætisráðherra Singapúr, Ann Molin framkvæmdastjóri Hack for Sweden, Arild Kristensen framkvæmdastjóri norska heilbrigðisklasans og Marko Vanska skrifstofustjóri hjá Business Finland.

Íslensku fyrirtækin Origo og Aranja, sem bæði hafa tekið virkan þátt í þróun íslenskra heilbrigðislausna í tengslum við Covid-19 faraldurinn, tóku þátt í fyrirtækjahluta málstofunnar.

Um Nordic Innovation House

NIH-SG er ætlað að vera stökkpallur fyrir norræn sprota- og vaxtarfyrirtæki inn á markað í Singapúr og aðra nærmarkaði í SA-Asíu. Í setrinu fá fyrirtæki aðstöðu, ráðgjöf og staðbundið tengslanet. Fjögur setur eru nú starfrækt en til stendur að opna fimmta setrið í Tókýó á næstunni.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Elís Ólafsson ([email protected]), stjórnarmaður í NIH-SG.

  • Ingi Steinar Ingason teymisstjóri í miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis var fulltrúi Íslands í málstofunni. - mynd
  • Um 450 gestir tóku þátt í málstofunni víðs vegar að úr heiminum. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum