Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferðarvaktin í heimsókn á Suðurnesjum

Yfirlitsmynd af fundi - mynd

Þann 19. júní heimsótti Velferðarvaktin Suðurnesin heim og fundaði með heimamönnum í Hljómahöllinni. Tilgangur fundarins var að fá yfirlit yfir helstu áskoranir á svæðinu í kjölfar Covid-19 og heyra hvernig heimamenn telja að staðan verði í haust og vetur. Um 50 manns sóttu fundinn. Fundarstjóri var Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ.

Dagskrá var eftirfarandi:

  • Almenn opnun á fundinum, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.
  • Samfélagið á Suðurnesjum, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs.
  • Vinnumálastofnun Suðurnesja, Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður.
  • Sveitarfélögin:

    Félagsþjónusta, María Rós Skúladóttir, deildarstjóri félagsþjónustu Suðurnesjabæjar.

    Barnavernd, María Gunnarsdóttir, forstöðumaður Barnaverndar Reykjanesbæjar.

    Skólarnir og skólaþjónusta, Sigrún Pétursdóttir, ráðgjafi hjá félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkur.

  • VIRK starfsendurhæfingarsjóður á Suðurnesjum, Eysteinn Eyjólfsson, verkefnastjóri almannatengsla og útgáfu.
  • Velferðarsjóður Suðurnesja/kirkjurnar á Suðurnesjum, Vilborg Oddsdóttir, Hjálparstarf kirkjunnar.
  • Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum, Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður FÍ.
  • Rauði krossinn. Fanney Grétarsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins á Suðurnesjum.
  • Lögreglan, Bjarney Sólveig Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Alda Hrönn Jóhannesdóttir, yfirlögfræðingur embættisins.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Þórunn Finnsdóttir, yfirsálfræðingur hjá HSS og Andrea Hauksdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslunnar.
  • Samantekt, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.
  • Umræður.

Að fundi loknum var farið í heimsókn í frumkvöðlafyrirtækið Aðaltorg  sem m.a. hefur byggt Marriot hótel með nýrri byggingartækni og bíður með fullmótað atvinnutækifæri í því húsnæði. Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, kynnti starfsemina.

Tekist á við áskoranir með dýrmætri reynslu og bættri tölfræði

Á fundinum komu fram áhugaverðar upplýsingar um stöðuna. Heimamenn drógu m.a. fram að nú væri samfélagið á vissan hátt betur undirbúið til að takast á við áföll heldur en í kjölfar efnahagshrunsins sem átti sér stað árið 2008. Helsti munurinn er sá að nú er hægt að grípa hratt til þeirrar dýrmætu reynslu sem varð til í kringum efnahagshrunið um hvað virki og hvað ekki. Þá er til mun betri tölfræði um stöðuna á svæði nú en þá. Áskoranir eru fjölmargar vegna afleiðinga Covid-19. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 19,6% í maí m.a. vegna þess hve svæðið er háð flugrekstri og ferðaþjónustu. Búast má við að atvinnuleysi aukist í september ef ekki verður viðsnúningur í flugrekstri. Þá má búast við að fleiri fái fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélaganna með haustinu. Einnig eru áhyggjur af því að tekjutap foreldra geti valdið því að þeir kaupi minni þjónustu fyrir börnin s.s. skólamáltíðir, leikskólavistun og íþrótta- og tómstundastarf. Tilkynningar vegna barnaverndarmála hafa aukist sem og biðlistar vegna ýmiskonar þjónustu s.s. sálfræðiþjónustu og úrlausn mála hjá Vinnumálastofnun.

Fjölmargar aðgerðir virkjaðar á svæðinu

Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða og samstarfsverkefna meðal lykilaðila á svæðinu til að takast á við stöðuna í kjölfar Covid-19. Meðal þeirra eru:

  • Suðurnesjahópur, samráðshópur forvarnaaðgerða í kjölfar Covid-19 (lögreglan, Reykjanesbær, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum).
  • Ævintýrasmiðjurnar fyrir fötluð börn og ungmenni.
  • Skapandi sumarnámskeið fyrir börn á Ásbrú.
  • Dregið úr sumarlokunum, s.s. í athvarfi og iðju í Björginni og Hæfingarstöðinni og félagsstarfi aldraðra.
  • Hópur um atvinnumál fólks af erlendum uppruna.
  • Hópur um nýsköpun.
  • Ýmis verkefni á vegum Vinnumálastofnunar s.s. starfstengd námskeið/fræðsla/nám, starfsþjálfunarsamningar, mentor verkefni, markþjálfun og Nám er vinnandi vegur 2.
  • Sumarátakið Vinnum saman, sem er samstarf vinnuskóla Reykjanesbæjar, fræðslusviðs og Lögreglustjórans á Suðurnesjum.
  • Eftirfylgni á vegum skólanna þar sem m.a. námsráðgjafar hafa haldið sérstaklega utanum nemendur í brotthvarfshættu til að halda sem flestum í virkni.
  • Þá hafa ýmis verkefni, sem fóru af stað fyrir Covid-19, reynst vel s.s. verkefni á sviði barnaverndar eins ogÁbyrg saman í Reykjanesbæ, í samstarfi við Lögreglustjórann á Suðurnesjum og tilraunaverkefnið Fjölskylduheimili í Reykjanesbæ.

Hugur var í heimamönnum sem sinna velferðarþjónustu á Suðurnesjum og fluttu erindi á fundinum. Sá hugur kom m.a. fram í lokaorðum eins fyrirlesarans: áskoranir eru tækifæri, brúum bilið, byggjum brýr, skiljum engan eftir.

Velferðarvaktin þakkar vandaðan undirbúning fundarins og góðar móttökur Suðurnesjamanna.

  • Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóra fjölmenningarmála í Reykjanesbæ og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar  - mynd
  • Eysteinn Eyjólfsson, verkefnastjóri almannatengsla og útgáfu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum