Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Frásögnum safnað um skólastarf í samkomubanni

Í tengslum við ráðstefnuna um viðbrögð íslenska menntakerfisins vegna COVID-19 faraldursins sem fara mun fram í september nk. er nú safnað sögum og frásögnum af upplifun fólks og reynslu af námi og kennslu í samkomubanni. Sögurnar verða nýttar í umfjöllun ráðstefnunnar og valdar sögur verða efniviður í bók sem ráðgert er að gefa út í kjölfarið. Markmiðið er að draga lærdóm af því sem gert var og nýta þá reynslu til framtíðar, íslensku menntakerfi til heilla.

„Við höfum áhuga á öllu því sem við kemur námi og kennslu á þessum tíma, en einnig öðrum þáttum sem höfðu áhrif á nemendur, foreldra, kennara, skólastjórnendur auk annarra starfsmanna skóla á öllum skólastigum. Við viljum fá sem breiðasta dreifingu sagna með alls konar upplifunum, áskorunum, lausnum og reynslu. Umfram allt höfum við áhuga á sögum sem við getum dregið lærdóm af,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Sögunum má skila á íslensku eða ensku á netfangið [email protected] fyrir 17. ágúst nk. Þær má senda inn skriflega eða á fjölbreyttara formi, s.s. sem myndbönd, hljóðrás eða ljósmyndir.

Sögurnar mega vera nafnlausar, en koma þarf fram staða þess sem miðlar sögunni (nemandi, foreldri, kennari, skólastjórnandi, annað), skólastig og landsfjórðungur/svæði.  Æskileg lengd sagna er allt að 300-600 orð í rituðum texta eða allt að 3 mínútur ef um myndband eða hljóðrás er að ræða. Efnistök eru opin en málefnið þarf að tengjast menntun og COVID-19.

Til að skýra betur hverskonar sögum er leitað eftir er hér til hliðsjónar stuttur listi yfir áherslur. Þátttakendum er þó velkomið að  fjalla um hvaðeina sem þeim liggur á hjarta tengt COVID-19 og menntun.

  • Áskoranir
  • Nám og kennsla
  • Fjölskyldulífið - foreldrasamstarf
  • Líðan
  • Félagstengsl – vinir
  • Frístundir
  • Áhrif til framtíðar - lærdómur
Ráðstefnan verður öllum opin meðan húsrúm leyfir, dagskrá hennar og skráning verður auglýst þegar nær dregur. Hún er skipulögð í samstarfi ráðuneytisins við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum