Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Halla Sigrún Sigurðardóttir skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu loftslagsmála

Halla Sigrún Sigurðardóttir - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa Höllu Sigrúnu Sigurðardóttur í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu loftslagsmála til næstu fimm ára.

Nýtt skipurit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins tók gildi 1. júní sl. sem hefur það markmið að efla starfsemi ráðuneytisins til að takast á við viðamikið hlutverk þess á sviði alþjóðamála og samþættingar umhverfismála, einkum loftslagsmála við aðra málaflokka.  Skrifstofa loftslagsmála  og skrifstofa alþjóðamála og samþættingar voru settar á fót  og hefur skrifstofa loftslagsmála m.a það hlutverk að sjá um framkvæmd og eftirfylgni verkefna stjórnvalda á sviði loftslagsmála.

Halla Sigrún starfar sem framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og þróunarsviðs Samgöngustofu og er staðgengill forstjóra. Hún var áður framkvæmdastjóri samhæfingasviðs Samgöngustofu 2013-2019 og settur forstjóri sumarið 2019. Hún gegndi m.a. lykilhlutverki við mótun og stofnun Samgöngustofu. Halla Sigrún var framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Flugmálastjórnar Íslands 2007-2013, aðstoðarmaður flugmálastjóra 2004-2006 og starfaði hjá BHM sem verkefnastjóri, upplýsingafulltrúi og kjararáðgjafi 1999-2002.

Halla Sigrún er með MBA gráðu frá Strathclyde Graduate School of Business í Glasgow í Skotlandi og BA gráðu í atvinnulífs og mannfræði frá Háskóla Íslands. Halla Sigrún er með diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Eiginmaður Höllu Sigrúnar er Birkir Marteinsson og eiga þau tvo syni.

Alls bárust 30 umsóknir um embættið sem auglýst var laust til umsóknar 6. júní sl. Hæfnisnefnd sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra til að meta hæfni og hæfi umsækjenda skilaði greinargerð sinni til ráðherra í samræmi við reglur nr. 393/2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum