Hoppa yfir valmynd
19. september 2020 Innviðaráðuneytið

Að vera í sambandi við önnur lönd

Greinin var birt í Morgunblaðinu 19. september 2020

„Að vera í sambandi við annað fólk er mér lífsnauðsyn“ ortu Stuðmenn og hlýtur það að vera heilagur sannleikur eins og annað sem hefur komið frá þeim mætu mönnum. Samskipti eru okkur öllum mikilvæg og eftir því sem tíminn líður verður það æ mikilvægara fyrir okkur sem á þessari fallegu eyju búum að hafa öruggt og öflugt samband við útlönd. Eins og stendur er fjarskiptasamband okkar við útlönd tryggt með þremur fjarskiptastrengjum, tveimur sem liggja til Evrópu, Farice og Danice, og einum sem tengir okkur við Norður-Ameríku, Greenland Connect.

Í fjarskiptaáætlun sem ég lagði fyrir Alþingi árið 2019 og var samþykkt, legg ég áherslu á að lagður verði nýr fjarskiptasæstrengur til að tryggja en frekar samband okkar við umheiminn. Ástæðurnar fyrir lagningu nýs strengs varða allt í senn öryggis-, efnahags-, varnar- og almannahagsmuni. Fjölmargir hafa tekið undir mikilvægi slíkrar aðgerðar, þar á meðal Samtök iðnaðarins og Samtök gagnavera.

Það var því ánægjulegt þegar ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir skemmstu tillögu mína og fjármála- og efnahagsráðherra um að tryggja fjármögnun nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands sem nefndur hefur verið Íris.

Mikilvægt er að endurnýja kerfið tímanlega þar sem Farice-strengurinn er kominn til ára sinna. Þeir tímar sem við höfum gengið í gegnum undanfarið undirstrika enn fremur nauðsyn öruggs og öflugs útlandasambands þegar samgöngur í heiminum eru takmarkaðar um ófyrirséðan tíma.

Þótt öryggisþátturinn ráði miklu er efnahagsþátturinn ekki síður mikilvægur. Hér á landi hefur byggst upp öflug starfsemi sem reiðir sig mjög á öruggt og gott samband. Má þar nefna ört vaxandi geira eins og tölvuleikjageirann sem nýtir sér styrk skapandi greina á Íslandi, geira sem ég tel mikilvægt að hlúa að og efla á komandi tímum. Þá eru mikil tækifæri fólgin í uppbyggingu gagnavera en ný og öflug tenging eykur mjög möguleikana þegar kemur að gagnaverum fyrir stóra aðila eins og Google og Facebook, svo einhver fyrirtæki séu nefnd

 „Að vera í takt við tímann getur tekið á. Að vera up to date er okkar innsta þrá“ ortu Stuðmenn einnig og má segja að þessi miklu og jákvæðu tíðindi af uppbyggingu fullkomins sambands við útlönd séu í takt við nýja tíma þar sem áhersla stjórnvalda er á fjölbreyttari atvinnuvegi. Og af því ég var byrjaður að garfa í textum Stuðmanna get ég ekki annað en endað á þessari línu sem er eins og töluð út úr hjarta framsóknarmannsins: „Hvers kyns fanatík er okkur framandi. Hún er handbremsa á hugann, lamandi.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum