Hoppa yfir valmynd
24. september 2020 Forsætisráðuneytið

Stjórnsýslulögin 25 ára – safn fræðilegra ritgerða birt á vefsvæði Stjórnarráðsins

Árið 2019 var aldarfjórðungur liðinn frá því stjórnsýslulög nr. 37/1993 tóku gildi. Fólu lögin í sér mikla réttarbót fyrir almenning enda fyrsta heildstæða löggjöf hér á landi um málsmeðferð í stjórnsýslunni. Gildistaka þeirra markaði tímamót bæði að því er varðar starfsskilyrði stjórnsýslunnar og réttarstöðu borgaranna í samskiptum við stjórnvöld.

Meginmarkmið laganna var að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við yfirvöld en jafnframt að stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í störfum stjórnvalda. Að baki stjórnsýslulögunum bjó einnig það sjónarmið að auka traust á störfum stjórnvalda. Þannig var það ekki einungis markmið að stuðla að efnislega réttri niðurstöðu í máli með fyrir fram ákveðnum málsmeðferðarreglum heldur jafnframt að ásýndin af störfum stjórnvalda væri með þeim hætti að hún vekti traust hjá borgurunum um að niðurstaða mála væri og yrði rétt.

Við þau tímamót er rétt að staldra við og huga að því hvaða lærdóm er unnt að draga af framkvæmd stjórnsýslulaga þann aldarfjórðung sem liðinn er frá gildistöku þeirra og hvort og þá hvernig unnt sé að nýta þann lærdóm til að efla stjórnsýsluna og auka traust almennings á henni. Af því tilefni stendur forsætisráðuneytið fyrir útgáfu safns fræðilegra ritgerða um lögin og framkvæmd þeirra með það að markmiði að skapa vettvang fyrir fræðilega umfjöllun um lögin, bæði hvernig til hefur tekist síðastliðinn aldarfjórðung og hvað tekur við þann næsta. Slíkri umfjöllun er ekki einungis ætlað að nýtast við frekari rannsóknir og kennslu heldur einnig við framkvæmd laganna og endurskoðun þeirra sem og aðra stefnumótun sem nú stendur yfir að hluta í forsætisráðuneytinu.

Ritið er nú aðgengilegt í heild sinni á vef Stjórnarráðsins.

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum