Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2020 Matvælaráðuneytið

Skýrslu um þróun tollverndar skilað til ráðherra

Starfshópur, sem falið var að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, hefur skilað skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og gerði ráðherra grein fyrir skýrslunni á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Í skýrslunni er fjallað um markaðsaðgang og tollaívilnanir í gegnum fríverslunar- og viðskiptasamninga sem Ísland hefur gert, ítarlega er farið yfir þróun á innflutningi landbúnaðarafurða og innlendrar framleiðslu síðasta áratuginn og fjallað er um þróun tollverndar og stuðning við landbúnað í alþjóðlegu samhengi.

Skýslan var unnin að frumkvæði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og er liður í aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Skýrslan verður tekin til athugunar í verkefnistjórn um mótun landbúnaðarstefnu

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru: 

  • Erlend samkeppni hefur aukist töluvert með auknum innflutningi landbúnaðarvara síðasta áratuginn. Stærstu áhrifaþættirnir eru aukin eftirspurn vegna fjölgunar ferðamanna, breytingar á neysluvenjum og rýmri markaðsaðgangur fyrir innfluttar vörur til Íslands. Þar ber helst að nefna samninga Íslands við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tóku gildi árið 2018. Eftirspurn eftir tollkvótum hefur aukist mikið undanfarin ár og opnir tollkvótar hafa verið veittir tímabundið á ákveðnum vörum þegar þær skorti á innlendum markaði. 

  • Innlend framleiðsla virðist í flestum tilvikum ekki hafa haldið í aukna eftirspurn og hefur henni verið mætt í meira mæli með innflutningi. Sjá má að í ákveðnum vöruflokkum hefur framboð ekki náð að anna eftirspurn og hafa ákveðnar vörur verið fluttar inn á tiltölulega háum tollum á síðari árum, sem var fáheyrt fyrr á tímum. Framleiðsluferill margra landbúnaðarvara er langur og getur reynst erfitt fyrir framleiðendur að bregðast skjótt við breytingum á markaði. Markaðshlutdeild innfluttra vara hefur því almennt aukist nokkuð umfram innlendar vörur. 
  • Dregið hefur úr tollvernd á ýmsum vörutegundum í formi tollaniðurfellinga, tollalækkana og aukinna tollkvóta. Stærsti einstaki áhrifaþátturinn eru samningar Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Auknir tollkvótar hafa aukið markaðsaðgang hingað til lands á kjöti, ostum og unnum kjötvörum. 

  • Samkvæmt OECD hefur tollvernd á Íslandi dregist saman yfir lengri tíma en breytilegt eftir því hvaða tímabil eru til skoðunar. Í alþjóðlegum samanburði er tollvernd mest hjá Íslandi samanborið við aðildarríki OECD og ESB, en hún er á svipuðu reki og hjá Noregi og Sviss.

Starfshópurinn var þannig skipaður:

  • Daði Már Kristófersson, skipaður formaður,
  • Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands,
  • Tryggvi Másson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, 
  • Arnar Freyr Einarsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið,
  • Bryndís Eiríksdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. 

Hér má finna skýrsluna (Skýrsla uppfærð þann 12. janúar 2021)

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum