Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenska iðnbyltingin

Sæt­ur ilm­ur­inn af pip­ar­kök­um, randalín­um og smá­kök­um er alltumlykj­andi, enda jól­in á næsta leiti. Ást Íslend­inga á sæt­um kök­um og brauði er þó ekki bund­in við eina árstíð og fátt er betra en að vakna snemma um helg­ar til að skjót­ast í bakarí fyr­ir fjöl­skyld­una. Bera fram nýbakað brauð, álegg og jafn­vel leyfa börn­un­um að sökkva sér í kleinu­hring eða volg­an snúð.

Bak­araiðn á sér langa sögu hér á landi. Árið 1834 stóð kaupmaður­inn Peter C. Knudt­son fyr­ir bygg­ingu húsa á Torf­unni svo­kölluðu, þar sem eitt hús­anna var búið bak­ara­ofni. Þangað réðst til starfa er­lendi bak­ara­meist­ar­inn Tönnies Daniel Bern­höft og Ber­höfts-bakarí varð til. Fram­an af voru ein­ung­is bakaðar nokkr­ar teg­und­ir af brauði, svo sem rúg­brauð, fransk­brauð, súr- og land­brauð, en smám sam­an jókst úr­valið og þótti fjöl­breytt um alda­mót­in 1900. Þar með var grunn­ur­inn lagður að baka­rís­menn­ingu sem er löngu rót­gró­in í sam­fé­lag­inu. Form­legt nám í bakaraiðn hófst í Iðnskól­an­um í Reykja­vík árið 1964 og greina mátti mikla ánægju yfir því að stórt bar­áttu­mál bak­ara­stétt­ar­inn­ar væri í höfn!

Enn má merkja mikla ánægju með ís­lensk bakarí, en ánægj­an nær einnig til annarra iðngreina. Við erum stolt af fag­mennsku þeirra sem lært hafa sína iðn í ís­lensk­um skól­um og loks­ins er okk­ur að tak­ast að ryðja úr vegi kerf­is­læg­um hindr­un­um í starfs­mennta­kerf­inu – nokkuð sem lengi hef­ur verið rætt, án sýni­legs ár­ang­urs fyrr en nú. Kerf­is­breyt­ing­un­um er ætlað að jafna stöðu iðnnáms og bók­náms, fjölga þeim sem mennta sig í takt við eig­in áhuga, auka veg og virðingu iðngreina og upp­fylla bet­ur þarf­ir sam­fé­lags­ins. Þetta er mín mennta­hug­sjón.

Stefnt er að því að frá og með næsta skóla­ári fái iðnmenntaðir sem vilja aðgang að há­skól­um, rétt eins og bók­menntaðir fram­halds­skóla­nem­ar. Í því felst bæði sjálf­sögð og eðli­leg grundvallar­breyt­ing. Önnur slík felst í nýrri aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema en fram­veg­is mun skóla­kerfið tryggja náms­lok nem­enda, sem ráðast ekki af aðstæðum nema til að kom­ast á starfs­samn­ing. Reglu­gerð í þessa veru verður gef­in út á næstu dög­um, en þetta er lík­lega stærsta breyt­ing­in sem orðið hef­ur á starfs­mennta­kerf­inu í ára­tugi. Aukn­um fjármunum hef­ur verið veitt til tækja­kaupa og til að bæta kennsluaðstæður í starfs­mennta­skól­um. Við höf­um ráðist í kynn­ingar­átak með hagaðilum til að vekja at­hygli á starfs- og tækni­námi, skóla­hús­næði verið stækkað og und­ir­bún­ing­ur að nýj­um Tækni­skóla er haf­inn.

Sam­hliða hef­ur ásókn í starfs­nám auk­ist gríðarlega og nú kom­ast færri að en vilja. Ein­hverj­ir kalla það lúxusvanda, en minn ásetn­ing­ur er að tryggja öll­um nám við hæfi, bæði hár­greiðslu­mönn­um og smíðakon­um. Með fjöl­breytta mennt­un og ólíka færni byggj­um við upp sam­fé­lag framtíðar­inn­ar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum