Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um niðurdælingu koldíoxíðs á Íslandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi á Alþingi sem á að tryggja örugga föngun, flutning og niðurdælingu koldíoxíðs í jarðlög á Íslandi í því skyni að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Verði frumvarpið að lögum geta fyrirtæki nýtt sér niðurdælingu og steinrenningu koldíoxíðs og þannig dregið það frá í losunarbókhaldi sínu. Fyrirtæki sem heyra undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir eru þar með talin. Því yrði til hvati fyrir þau fyrirtæki að nýta sér aðferðina til að ná í raun samdrætti í losun og draga þannig úr kostnaði vegna kaupa á losunarheimildum sem þau þurfa að standa skil á nú.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og varða þær geymslu koldíoxíðs neðanjarðar á grundvelli tilskipunar ESB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Tilskipunin var samt sem áður innleidd í íslenskan rétt árið 2015 en þá var ákveðið að nýta heimild til þess að banna geymslu koldíoxíðs neðanjarðar á íslensku yfirráðasvæði þar sem slíkt var ekki talinn raunhæfur kostur vegna jarðfræðilegra aðstæðna hér á landi.

Þekktar aðferðir þess tíma gengu út á nýtingu jarðlaga á borð við olíu- og gaslindir, kolalög eða jarðsjó í setlögum, þ.e. holrými neðanjarðar sem henta til geymslu á koldíoxíði. Í tilskipuninni var heimild sem leyfir geymslu á allt að 100 kílótonnum af koldíoxíði í rannsóknar- og tilraunaskyni sem var ákveðið að nýta.

Ekki hætta með steinrenningu á að koldíoxíð sleppi út

Í janúar 2012 hófst niðurdæling  hér á landi á koldíoxíði í tilraunaskyni með svokallaðri Carbfix-aðferð sem felur í sér steinrenningu koldíoxíðs í jarðlögum. Með þeirri aðferð er koldíoxíði dælt niður og að tilteknum tíma liðnum er hægt að staðreyna steinrenningu koldíoxíðsins. Með steinrenningu er ekki hætta á að koldíoxíðið sleppi út eins og við geymslu þess í holrýmum og því ekki nauðsynlegt að tryggja eftirlit til lengri tíma. Í tilskipuninni er á hinn bóginn gengið út frá geymslu koldíoxíðs í holrýmum neðanjarðar, en með slíkri geymslu er hætta á að koldíoxíð sleppi út og leiti aftur upp á yfirborðið. Í þeim aðstæðum, er nauðsynlegt að tryggja eftirlit til lengri tíma.  

Með því frumvarpi sem ráðherra mælti fyrir í dag á Alþingi er lagt til að innleiðing tilskipunarinnar í íslensk lög sé aðlöguð að jarðfræði hér á landi og að varanleg geymsla koldíoxíðs verði heimiluð. Þetta skapar tækifæri fyrir rekstraraðila sem standa innan viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir (ETS), til að fá niðurdælingu á koldíoxíði dregna frá í losunarbókhaldi sínu. Jafnframt munu aðilar hér á landi, sem standa utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins, fá tækifæri til að taka á móti innfluttu koldíoxíði frá rekstraraðilum af Evrópska efnahagssvæðinu til niðurdælingar og varanlegrar geymslu í jörðu hérlendis.

„Verði þetta frumvarp að lögum opnast miklir möguleikar fyrir fyrirtæki á Íslandi og raunar á öllu evrópska efnahagssvæðinu,“ segir Guðmundur Ingi. „Aðstæður hér á landi eru þannig að hægt væri að steingera nánast ótakmarkað magn koldíoxíðs í jarðlögum. Slíkt gæti skipt sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ekki bara fyrir Íslendinga heldur alla jarðarbúa.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum