Hoppa yfir valmynd
1. desember 2020 Forsætisráðuneytið

Niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu

Í dag var kveðinn upp dómur í yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Guðmundar A. Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Í dómi yfirdeildar er í meginatriðum komist að sömu niðurstöðu og í dómi MDE frá 12. mars 2019.

Í málinu var deilt um þá niðurstöðu Hæstaréttar Íslands að kærandi hafi notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þegar Landsréttur staðfesti niðurstöðu sakfellingar sem hann hlaut í héraði. Með dómi sínum 12. mars 2019 komst meirihluti MDE að þeirri niðurstöðu að svo verulegir annmarkar hefðu verið á skipan eins landsréttardómara, sem dæmdi í máli kæranda, að samanlagðir hefðu þeir falið í sér gróft brot á landslögum sem gilda um skipan dómara.  Um væri að ræða brot gegn þeim áskilnaði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans að skipan dómstóls væri ákveðin með lögum. Undir þessi sjónarmið var tekið í dómi yfirdeildar í dag en þó með mun ítarlegri og skýrari rökstuðningi en áður.

Á sínum tíma tóku stjórnvöld þá ákvörðun að skjóta dómi MDE til yfirdeildarinnar í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem talið var að væru í húfi. Stofnun Landsréttar þjónaði því markmiði að efla dómskerfið í landinu. Að mati íslenskra stjórnvalda hafði dómur MDE ekki aðeins neikvæð áhrif á störf hins nýja áfrýjunardómstóls hér á landi heldur kallaði niðurstaðan einnig fram veigamiklar spurningar um túlkun og framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í öllum aðildarríkjum hans. Þessi afstaða íslenska ríkisins var í samræmi við niðurstöðu minnihluta dóms MDE sem taldi að hnökrar á framkvæmd skipunar dómara við stofnun Landsréttar væru ekki þess eðlis að þeir ættu að hafa þau afdrifaríku áhrif sem gátu leitt af niðurstöðu meirihluta dómsins. Gekk dómur MDE einnig þvert á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstóls þjóðarinnar.

Sú staðreynd að yfirdeild MDE tók málið til meðferðar er staðfesting á því að um þýðingarmikið lögfræðilegt álitaefni var að ræða sem fullt tilefni var til að fá óyggjandi niðurstöðu um en yfirdeildin tekur aðeins örfá mikilvæg mál til úrlausnar hverju sinni. Sá dómur sem kveðinn var upp í dag gefur einnig umtalsvert skýrari niðurstöðu en áður.   

Rétt er að nefna sérstaklega í þessu sambandi að dómur yfirdeildar í dag er skýr um að hann varðar einungis fjóra af upphaflegum dómurum Landsréttar en ekki alla 15.

Þegar dómur MDE féll þann 12. mars 2019 lét sá dómari sem í hlut átti af dómsstörfum í Landsrétti sem og þrír aðrir dómarar við réttinn sem sömu sjónarmið voru talin geta átt við um. Frá þeim tíma er dómurinn féll hafa mál skipast með þeim hætti að þrír af fjórum dómurum sem málið tók til hafa verið skipaðir í embætti við Landsrétt á nýjan leik með formlegu ferli í kjölfar þess að aðrir dómarar hafa horfið frá réttinum. Taka þeir nú fullan þátt í dómstörfum. Fjöldi starfandi dómara verður orðinn 14 í ársbyrjun 2021. Fullskipaður telur rétturinn 15 dómara.

Hvað varðar dóma sem féllu í Landsrétti með aðkomu hinna fjögurra dómara áður en dómur MDE var kveðinn upp 12. mars 2019 þá kann að vera að einhverjir málsaðilar þeirra óski eftir endurupptöku mála sinna. Alls er þar um 205 dóma að ræða sem skiptast í 85 sakamál og 120 einkamál. Kemur þá til kasta nýstofnaðs Endurupptökudóms að taka slíkar beiðnir til meðferðar.

Dómur yfirdeildar leiðir þó ekki af sér sjálfstæðan eða sjálfkrafa rétt til endurupptöku. Þetta er raunar tekið sérstaklega fram í dómnum sjálfum þar sem fram kemur að hann beri ekki að skilja sem svo að af honum leiði að íslenska ríkinu beri að endurupptaka öll sambærileg mál og hann fjallar um.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum