Hoppa yfir valmynd
2. desember 2020

Fundur Velferðarvaktarinnar 6. október 2020

43. fundur Velferðarvaktarinnar


6. október 2020 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N, Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sara Jasonardóttir frá Umboðsmanni skuldara, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir frá Heimili og skóla, Steinunn Bergmann frá BHM, Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Viðar Helgason frá efnahags- og fjármálaráðuneyti, Þórdís Viborg frá ÖBÍ, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

__

 

 

1. Staða mála vegna Covid-19

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fór stuttlega yfir stöðu mála vegna Covid-19. Ráðherra ræddi meðal annars um að enn og aftur gegndi samvinnuvettvangur Velferðarvaktarinnar mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að bregðast við áhrifum og afleiðingum Covid-19. Ráðherra þakkaði vel fyrir allar upplýsingar og ábendingar sem borist hefðu frá aðilum í vaktinni, þær hefðu vissulega skilað sér í aðgerðum stjórnvalda, og hvatti til að haldið yrði áfram uppteknum hætti í ljósi núverandi aðstæðna. 

 

2. Skýrsla um skýrslu um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi

Kolbeinn Stefánsson, félagsfræðingur og Helgi Eiríkur Eyjólfsson, sérfræðingur á skrifstofu mennta- og vísindamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, kynntu fyrstu drög að skýrslu um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi. Sérstaða rannsóknarinnar er einkum sú að hingað til hefur einungis verið horft til einstaklingabundinna þátta þegar kemur að brotthvarfi en hér væri horft til félagslegrar stöðu og efnahagslegs bakgrunns. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að lægri ráðstöfunartekjur heimilanna auka líkur á brotthvarfi nemenda. Einnig getur verið um að ræða samspil við ákveðna félagslega þætti s.s. menntun foreldra, hvort viðkomandi búi hjá einstæðu foreldri, foreldri sé með örorkumat o.s.frv.
Gert er ráð fyrir að skýrslan verði tilbúin í nóvember.

 

3. Aðgerðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi tillögur Velferðarvaktarinnar um skólasókn, skólaforðun og jafnt aðgengi að námi og þjónustu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þakkaði Velferðarvaktinni fyrir þann áhuga og frumkvæði sem hún hefði sýnt þegar kemur að menntamálum. Í framhaldinu kynnti ráðherra aðgerðir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem m.a. er ætlað að bregðast við tillögum sem Velferðarvaktin lagði fram í mars 2019 í kjölfar könnunar á skólasókn og skólaforðun.

Þá ræddi ráðherra um að viðbrögð við Covid-19 væri mikil áskorun fyrir skólakerfið og mikilvægt væri að skólarnir geti brugðist hratt við mismunandi aðstæðum og þörfum nemenda á þessum tímum svo koma megi í veg fyrir að þeir lendi í brothættum hópi þar sem auknar líkur eru á brotthvarfi.  

4. Staðan í uppbyggingarteymi félags- og atvinnumála vegna Covid-19

Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu og formaður teymisins, fór yfir nýjustu störf teymisins. Í síðustu skýrslu var lögð áhersla á málefni innflytjenda og í kjölfarið var lögð fram tillaga á ríkisstjórnarfundi um að Þróunarsjóður innflytjendamála verði styrktur um 25 m.kr. Slíkt er í anda Velferðarvaktarinnar sem lagði fram tillögu árið 2017 um að sjóðurinn yrði efldur.

Efni næsta fundar teymisins verður fátækt og óskaði Gissur eftir upplýsingum og ábendingum varðandi það viðfangsefni frá baklandi Velferðarvaktarinnar í gegnum netfangið [email protected].

Nánar um teymið.

 

5. Áskoranir á Suðurnesjum
Hera Ósk Einarsdóttur, sviðsstjóri velferðarsviðs í Reykjanesbæ, sagði frá stöðu mála í Reykjanesbæ en sl. sumar hélt Velferðarvaktin fund á Suðurnesjum í þeim tilgangi að fá yfirlit yfir helstu áskoranir á svæðinu í kjölfar Covid-19 og heyra hvernig heimamenn töldu að staðan yrði í haust og vetur.
Hera upplýsti að atvinnuleysi færi vaxandi á svæðinu, en það er nú 20%, og umsóknir um fjárhagsaðstoð hefðu aukist þar sem margir væru búnir að missa bótarétt sinn eftir að hafa misst vinnuna í kjölfar fyrri bylgju faraldursins. Þá hefur fjöldi flóttafólks, sem ekki hefur komist inn á vinnumarkaðinn, aukist. Fram kom að sveitarfélagið væri að kanna hvort svigrúm væri til þess að hækka upphæð fjárhagsaðstoðar.

Gert er ráð fyrir að þessi staða muni vara fram á næsta ár og hefur Reykjanesbær gripið til ýmissa aðgerða til þess að bregðast við stöðunni t.d. með því að bjóða upp á virkniúrræði sem miða einkum að ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Einnig eru farin af stað ýmis samstarfsverkefni við opinbera aðila t.d. Vinnumálstofnun og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þá var nýverið hrint af stað samfélagsverkefninu „Allir með“ sem á með fjölbreyttum hætti að stuðla að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu.
Velferðarvaktin mun áfram fylgjast með þróun mála á svæðinu.

 

6. Örkynningar úr baklandinu

  • Umboðsmaður skuldara – Ásta B. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, upplýsti um stöðuna þar en stofnunin hefur enn sem komið er ekki fundið fyrir aukningu umsókna til UMS.Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafi gripið til úrræða sem eru að koma til móts við þá sem á þurfa að halda. Vanskilahlutfall hefur lækkað og innlán aukist, sem tengja má við útgreiðslu á séreignarsparnaði. Það ríkir hinsvegar mikil óvissa um framhaldið. Skjólstæðingar eru fyrst og fremst fólk á leigumarkaði, fólk á örorku og fólk í láglaunastörfum.
  • Vinnumálastofnun - Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviðs VMST, kynnti stöðu og horfur á vinnumarkaði í september 2020 og aðgerðir framundan. Sjá glærur.

 

7. Önnur mál

  • Upplýst var um fund sárafátæktarhóps Velferðarvaktar þann 24. september sl. sem fjallaði um tekjumissi sem einstaklingar geta orðið fyrir á meðan beðið er eftir afgreiðslu umsókna um atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð, örorkumats o.s.frv.
  • Næsti fundur Velferðarvaktar verður 3. nóvember á Zoom. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra verði gestur á þeim fundi.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum