Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um bætta barneignaþjónustu

Tillögur um bætta barneignaþjónustu - myndMynd úr einkasafni. Birt með leyfi höfundar

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að bættri barneignaþjónustu með áherslu á að auka samþættingu milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og þjónustu við konur í sængurlegu hefur skilað ráðherra tillögum sínum. Tillögurnar taka mið af áherslum heilbrigðisstefnu og fela í sér framtíðarsýn til ársins 2030.

Niðurstaða starfshópsins felur í sér áherslu á samþættingu þjónustunnar með teymis- og samvinnu þar sem sérþekking mannauðsins er nýtt til hins ítrasta. Yfirsýnin yfir þjónustuna og samvinnan milli stofnana er að mati hópsins afar mikilvæg sem bakstuðningur fyrir fagfólk sem eykur fagmennsku og aðgengi að nauðsynlegri þjónustu og eykur þar með öryggi kvenna og barna. Í skýrslu hópsins kemur fram að árangur barneignaþjónustu hér á landi sé með því besta sem þekkist. Mikilvægt sé að viðhalda þeim góða árangri og jafnframt að nýta þau tækifæri sem gefast til að bæta enn frekar heilsu og líðan fjölskyldna í barneignarferli.

Starfshópurinn leggur áherslu á að barneignarþjónusta eigi að vera samfellt þjónustuferli þótt þjónustan sé veitt á mismunandi stöðum og á mismunandi stigum heilbrigðisþjónustu. Í samræmi við heilbrigðisstefnu þurfi að leggja áherslu á þjónustustýringu, greiða leið notenda á milli þjónustustiga eftir þörfum, ásamt öryggi, hagkvæmni og jafnræði.

Tillögur hópsins miða að því að auka yfirsýn, aðgengi og samfellu í þjónustunni til að tryggja öryggi, gæði og fagmennsku hennar, óháð búsetu, fjárhag og félagslegri stöðu skjólstæðinga. Tillögurnar  lúta í fyrsta lagi að flæði og skipulagi barneignaþjónustu, í öðru lagi að þjónustu við konur fyrir meðgöngu, auk tillagna sem varða kynheilbrigði og tillögur sem snúa að meðgönguvernd, fæðingarhjálp og þjónustu í sængurlegu.

Tillögurnar eru m.a. þessar:

  • Skilgreint verði eitt eða fleiri stöðugildi héraðsljósmóður með vaktþjónustu í dreifðari byggðum þar sem ekki er fæðingarþjónusta.
  • Samvinna verði skipulögð milli stærri og minni fæðingarstaða, meðal annars með tilliti til sérhæfðari þjónustu fæðingar- og kvensjúkdómalækna.
  • Fjöldi og dreifing fæðingarstaða á landsvísu verði skoðuð sérstaklega og tryggt að ákvarðanir um breytingar þar að lútandi byggist á faglegum grundvelli með hliðsjón af öryggi og gæðum þjónustunnar og rétti kvenna til þess að eiga val um barneignaþjónustu.
  • Komið verð á formlegri umgjörð um heimaþjónustu við konur í sængurlegu, með áherslu á að viðhalda sveigjanleika þjónustunnar og fagmennsku.
  • Heimaþjónusta í sængurlegu verði veitt af ljósmæðrum í heilsugæslu og/eða fyrirtækjum ljósmæðra sem tryggt getur mönnun þjónustunnar alla daga ársins.
  • Vitjanir í sængurlegu nái upp að 4 – 6 vikna aldri barna.
  • Almenn og sérhæfð, fagleg ráðgjöf fyrir þungun verði samþætt og bætt, auk annarrar ráðgjafar sem tengist kven- og kynheilbrigði. Fræðsla og ráðgjöf hvað þetta varðar beinist jafnt að almenningi og fagfólki.
  • Lögð verði áhersla á að kostnaður við ráðgjöf og kaup á getnaðarvörnum takmarki ekki val einstaklinga á getnaðarvörn við hæfi.

Hópurinn leggur einnig fram tillögur að uppfærslu á leiðbeiningum á vali á fæðingarstað, til samræmingar annarri heilbrigðisþjónustu og til aðstoðar kvenna og heilbrigðisstarfsfólks við ákvarðanatöku og ráðgjöf.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að birta skýrsluna starfshópsins til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Að samráði loknu mun ráðuneytið vinna aðgerðaáætlun á grundvelli skýrslunnar og umsögnum úr samráðsferlinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum